154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Menntasjóður námsmanna.

935. mál
[21:19]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegur forseti. Þegar ég skoðaði þetta frumvarp þá leist mér ágætlega á mörg atriði í því og þó svo að það sé alveg ljóst að á því séu einnig gallar þá virðist það að mörgu leyti vel gert. Það er oft sagt að lítið eitt sé betra en ekki neitt og það á kannski við í þessu, sígandi lukka er oft best, og það er jákvætt að það sé verið að koma til móts við námsfólk og bæta stöðu þess. Hins vegar þegar ég las 2. gr. hnaut ég um ákveðinn þátt sem virðist vera í raun bara yfirsjón, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. 14 gr. laganna bætast þrír nýir málsl., svohljóðandi: Hafi lánþegi lokið fyrsta ári í lánshæfu námi, í samræmi við það sem skipulag námsins gerir ráð fyrir, getur hann áunnið sér námsstyrk fyrir það nám, ákveði hann að skipta yfir í annað lánshæft nám, strax á næsta skólaári. Réttur til námsstyrksins er háður því að lánþegi ljúki síðara náminu í samræmi við það sem skipulag þess náms gerir ráð fyrir. Þessi réttur gildir aðeins einu sinni á þeim tíma sem lánþegi þiggur lán hjá Menntasjóði námsmanna.“

En, forseti, hvað gerist nú ef það nám sem nemandi stundar hættir skyndilega að vera til? Það er þá ekki við nemanda að sakast þó að hann geti raunverulega ekki lokið því námi. Því legg ég til breytingartillögu við þetta frumvarp sem myndi taka á þessu, með leyfi forseta:

„Við 2. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Takmörkun skv. 5. málsl. við að skipta einu sinni um námsleið á ekki við ef lánþegi stundar nám sem er lagt niður og honum því gert ókleift að halda því námi áfram.“

Þetta ætti ekki að vera teljandi breyting á lögunum en gæti orðið mörgum nemendum mikilvægt ef þeir myndu lenda skyndilega í því að það nám sem þeir stunda sé bara ekki til staðar lengur. Þeir hafi þá tækifæri til þess að halda áfram að afla sér menntunar og styrkja sína stöðu.