154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

fiskveiðiviðræður milli Íslands og Grænlands varðandi aðgang til makrílveiða á Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2024.

929. mál
[21:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis að staðfesta fyrir Íslands hönd sameiginlega bókun um fiskveiðiviðræður milli Íslands og Grænlands varðandi aðgang til makrílveiða á Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2024.

Sameiginlega bókunin var undirrituð þann 18. desember 2023 og felur í sér gagnkvæmar aðgangsheimildir til makrílveiða. Viðræðurnar fóru fram sem hluti af samningsviðræðum Íslands og Grænlands um loðnu og gullkarfa. Samkvæmt bókuninni munu Ísland og Grænland veita allt að tveimur skipum aðgang að efnahagslögsögu hvors um sig til veiða á allt að 10.000 tonnum af makríl úr eigin aflamarki, svo fremi sem hvorugur aðili geri hlutasamning um stofninn. Ef annaðhvort ríki gerir hlutasamning er heimilt að segja bókuninni upp. Grænlenskum skipum, sem veiða makríl í lögsögu Íslands, verður skylt að heimila eftirlitsmanni Fiskistofu að vera um borð, fari íslensk stjórnvöld fram á það. Í samræmi við grænlensk lög kann þess sömuleiðis að vera krafist að íslensk skip hleypi eftirlitsmanni Grænlendinga um borð. Aðilar sammæltust um að árið 2024 ætti að vera reynslutímabil og í lok árs 2024 eða í byrjun árs 2025 verður árangur metinn af fyrirkomulaginu sem og hugsanleg endurskoðun. Samningurinn öðlast gildi þegar stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hefur verið fullnægt.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.