154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi óska að hv. þingmaður hefði haldið áfram að lesa og klárað setninguna. Ég staldraði aðeins við þetta á þessum örfáu dögum sem ég hafði til þess að fara yfir textann, hvort það mætti misskilja þessa setningu eins og hv. þingmaður hefur gert. 17 milljarðarnir, það er fjallað um hvaða áhrif þetta hefði á næsta ári og auðvitað er breyting á þessari gildistöku umtalsverð breyting á texta fjármálaáætlunar. 10 milljarðar varanlega eru augljóslega ekki sú frestun heldur það sem kemur fram í restinni af setningunni, sem er sú staðreynd að vegna kerfisbreytinga sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir á liðnum árum og áherslu á að koma inn með meiri virkni inn hjá öryrkjum þá hefur nýgengi örorku lækkað umtalsvert. Við höfum verið að leiðrétta tölur smátt og smátt á liðnum árum og sérstaklega í þessari fjármálaáætlun sem því nemur. Við höfum líka séð, og það er gleðilegt að geta sagt það, að tekjur aldraðra, sérstaklega þegar þeir fara á eftirlaun, eru miklu hærri en lífeyrisgreiðslur þannig að þær hafa líka verið að taka lækkun og þar liggur stærsta ástæðan fyrir þessari 10 milljarða varanlegu lækkun.