154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

mat á áhrifum nýrra búvörulaga og umsóknir um leyfi til hvalveiða.

[15:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hæstv. matvælaráðherra svarar því ekki alveg skýrt hvort hún sé sammála mati matvælaráðuneytis síns og Samkeppniseftirlitsins um áhrif lagabreytingarinnar hérna á Alþingi gagnvart EES-reglunum. Það kemur fram í bréfinu sem matvælaráðuneytið sendir atvinnuveganefnd að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, muni gera athugasemdir og koma með spurningar. Þá velti ég því fyrir mér hvort ráðherra sé hæfur til að svara þeim spurningum, vera í forsvari fyrir því að svara fyrir þær gerðir sem komu fram í hennar störfum sem nefndarmaður í nefndinni. Mér finnst það dálítið áhugavert hvernig þetta mál er að koma til okkar. Mér finnst áhugavert að fara úr einu starfi í annað á þennan hátt, með þessum athugasemdum, og að viðbrögðin séu bara: Ég ætla ekki aðhafast neitt. Er það ekki óeðlilegt þegar athugasemdirnar eru á þennan veg? Þetta er mjög áhugavert mál þegar allt kemur til alls og ég held að við ættum að íhuga það aðeins, horfa inn á við pínulítið, eins og með mörg önnur mál fyrir þinginu og hugsa um það hvort við séum að endurtaka skref sem verða brokkgeng í kjölfarið.