154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Fallegt hvernig við stundum lýðræðið, segir hæstv. forsætisráðherra. Samt höfum við þjóðaratkvæðagreiðslu frá 2012 sem er ekki enn þá búið að klára að uppfylla, svo fallegt er nú lýðræðið. Lýðræðið er miklu dýpra en það bara að ýta á takkana hérna á borðunum hjá okkur því að stór hluti af lýðræðinu, sem er kannski ekki alveg eins fallegt hérna inni í þessum þingsal og í nefndum þingsins, er að koma í veg fyrir að mál komist inn í þingsal til atkvæðagreiðslu. Svo fallegt er nú lýðræðið stundum. Það þarf ekki að vinna svona en svona vinnur þessi ríkisstjórn.

Við leggjum ekki fram vantrauststillögu að gamni okkar. Tilefnin hingað til hafa verið mörg en formlegar tillögur kannski færri. Yfirleitt látum við duga að segja bara að við vantreystum ríkisstjórninni. Við höfum gert það ansi oft á undanförnum kjörtímabilum en stundum er tilefnið svo mikið að það þarf formlega tillögu. Ég gæti talið upp fjölda mála þar sem verkleysi ríkisstjórnarinnar hefur verið beinlínis skaðlegt en það er bara kýtingur um pólitískar áherslur og hversu ósammála ég er ríkisstjórninni. Hversu slæm sem efnahagsstjórnin hefur verið þá tel ég að pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar séu ekki tilefni til þess að leggja fram vantrauststillögu. Nýja ríkisstjórnin hefur jú stuðning meiri hluta þings fyrir þá pólitísku stefnu sem við búum við, hvort sem það er gott eða slæmt. 9,25% stýrivextir og verðbólgan eins og hún hefur verið undanfarin tvö ár og þess háttar eru ágætis merki um það.

Með leyfi forseta vitna ég í hæstv. forsætisráðherra sem flutti vantrauststillögu á þáverandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnina skortir traust. Ríkisstjórnin hefur ekki stuðning fólksins í landinu. Hún forgangsraðar enda ekki í þágu Íslendinga. Hana skortir framtíðarsýn. Ríkisstjórnina skortir skilning á því að í mannauði þjóðarinnar felast verðmætin. Við þurfum að virkja kraftinn í fólkinu í þessu landi til þess að komast af stað, til þess að hefja nýja lífskjarasókn. Hæstv. ráðherrar, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, hafa fengið umboð, þau hafa fengið tíma og þau hafa fengið tækifæri til að leysa vanda þjóðarinnar. Þeim hefur algjörlega mistekist það ætlunarverk sitt. (Gripið fram í.) Hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess að boðað verði til kosninga hið fyrsta.“

Þetta er núna sex og hálfu ári eftir að ríkisstjórnin tók við þessum stóru verkefnum sem enn er ekki búið að leysa. Þetta var satt þá og þetta er satt í dag. Ríkisstjórnina skortir traust. Ríkisstjórnin hefur ekki stuðning fólksins í landinu. Ríkisstjórnina skortir framtíðarsýn og skilning á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin getur ekki leyst verkefni nútímans og býr beinlínis til ný vandamál sem framtíðarkynslóðir þurfa að leysa. Ég geri mér hins vegar fullkomlega grein fyrir því að hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson er ósammála mér rétt eins og þáverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir var ósammála honum. Ég geri þó ráð fyrir því að vantrauststillaga hans hafi verið lögð fram af góðum hug gagnvart hag þeirra sem þáverandi þingmaður Bjarni Benediktsson bar fyrir brjósti og ég geri ráð fyrir því að hann skilji að þessi vantrauststillaga kemur af góðum hug gagnvart þjóðarhag. Nú veit ég ekki hvort hæstv. forsætisráðherra hafi lært af reynslunni og hvort hann muni hlusta á sjálfan sig frá 13. apríl 2011 eða hvort hann skilji nú sjónarmið Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart hans eigin vantrauststillögu. Aðstæðurnar eru auðvitað ekki nákvæmlega þær sömu en rökin eru ótrúlega svipuð þegar allt kemur til alls.

Eins og áður sagði skortir ríkisstjórnina traust og forsætisráðherra hefur það síst af öllum. Við getum velt fyrir okkur ástæðum þess að traustið hefur gufað upp en kannski er auðveldast að vísa til orða stjórnarþingmanna sjálfra um orkuskort, verðbólgu, háa stýrivexti og útlendingamál, eða réttara sagt hvernig stjórnarþingmenn tala þvers og kruss í þessum málum. Undirliggjandi er augljóslega þeirra eigin ábyrgð á þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag sem samfélag. Núverandi ríkisstjórn hefur haft nær sjö ár til að taka til hendinni í öllum stóru málunum sem þeim finnst vera mikilvæg. En árangurinn er í besta falli kyrrstaða og í versta falli afturför og fyrir þau verk svarar ríkisstjórnin í almennum kosningum.

Að mínu mati eru þetta ekki mál sem réttlæta vantrauststillögu. Þetta eru bara pólitísk ágreiningsmál. Það eru hin málin sem eru ástæðan fyrir því að við ræðum vantrauststillögu í dag, málin þar sem hæfisreglur stjórnsýslulaga voru virtar að vettugi; þar sem sonur seldi föður hlut í ríkisbanka, þar sem bestu vinir aðal eru skipaðir pólitískt í fagleg embætti, þegar skýrslum er stungið undir stól eða sóttvarnalög brotin.

Þegar hægt er að kalla ákvarðanir ráðherra spillingu er tilefni til að leggja fram vantrauststillögu og við skulum ekki nota orðið spilling að gamni okkar. Við skulum ekki fara léttúðlega með það orð heldur skulum við nota orðið þegar tilefni er til. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að orðið lýsir misalvarlegum verkum. Þegar ég segi spilling þýðir það ekki að skjalatöskur fullar af peningum séu að ganga manna á milli þótt það virðist vera myndin sem kemur upp í hugann hjá mörgum þegar það orð er notað. Með það í huga að þá tel ég að það þurfi að segja það mjög skýrum orðum að það er skólabókardæmi um spillingu þegar fjármálaráðherra selur föður sínum hlut í ríkisbanka í lokuðu útboði. Sitt sýnist hverjum auðvitað um hversu alvarleg sú spilling er en spilling er það. Það er líka spilling að skipa náinn aðstoðarmann til margra ára í embætti sendiherra með því að nota útúrsnúninga á lögum til að komast fram hjá faglegu skipunarferli. Aðrir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og undanfara hennar eiga líka ýmis mál í pokahorninu sem eru vantrausts verð þar sem illa er farið með opinbert vald á kostnað almennra borgara.

Ég geri ráð fyrir því að hvert eitt og einasta okkar hérna inni hafi mismunandi skoðun á því um hvað þessi vantrauststillaga snýst. Það er mjög eðlilegt því við störfum hér samkvæmt sannfæringu okkar eins og stjórnarskráin kveður á um. Það er enginn sem getur sagt okkur fyrir verkum sem stangast á við sannfæringu okkar því svo segir í einni uppáhaldsgrein minni í stjórnarskrá að alþingismenn „eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Það eru gerðar tvær kröfur til þingmanna í stjórnarskrá Íslands; að þingmaður skuli vinna drengskaparheit að stjórnarskránni og sé eingöngu bundinn af sannfæringu sinni. Það hlýtur sú krafa að vera á okkur þegar við afgreiðum fyrirliggjandi vantrauststillögu að við gerum það samkvæmt sannfæringu eða með öðrum orðum samvisku okkar. Þess vegna tínum við til dæmi með eða á móti til að styðja vantrauststillögu og ræðum rökin með eða á móti og komumst að lokum að niðurstöðu, að það sé sannfæring okkar að styðja eða hafna þessari vantrauststillögu.

Þess vegna vil ég leggja fram eftirfarandi rök fyrir þingmenn til að taka afstöðu til. Nú hafa safnast saman rúmlega 41.000 rafrænt auðkenndar undirskriftir með yfirskriftinni, með leyfi forseta: „Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra.“ Hvernig hyggjast þingmenn svara þessari áskorun? Telja þingmenn þetta vera tilefnislausa undirskriftasöfnun? Afsaka þingmenn atkvæði sitt með tilvísun í eigið mikilvægi til að leysa öll stóru verkefnin, þið munið, öll verkefnin sem eru enn óleyst eftir nær sjö ár? Eru spillingarmálin bara pólitískur áróður?

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá var talið að undirskriftir 10% kjósenda væru nægilegur fjöldi til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi væri búið að samþykkja, svo lengi sem þeirri undirskriftasöfnun hefði lokið innan þriggja mánaða. Undirskriftasöfnunin gegn forsætisráðherra náði þessu lágmarki á tæplega tveimur sólarhringum, sem ætti að vera hv. þingmönnum vísbending um alvarleika málsins og hversu einörð afstaðan er gegn þessari ríkisstjórn. Við erum ekki að tala um málefnalegan ágreining, eitthvað sem reglulegar kosningar eru einmitt hannaðar til að skera úr um. Við erum að tala um ríkisstjórn sem er skipuð á svo veikum grunni að tilvist hennar ein og sér er ástæða til aðgerða rúmlega 41.000 kjósenda, 20% þeirra sem kusu í síðustu alþingiskosningum.

Ég trúi því innst inni að flestir stjórnarliðar skilji hversu alvarleg staða hæstv. forsætisráðherra sé en líði kannski í rauninni nákvæmlega eins og þolanda í ofbeldissambandi, eins og kemur fram í skýrslunni Ofbeldi í nánum samböndum, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um að slíta ofbeldissambandi er ferli og það getur tekið nokkur ofbeldistilfelli þar til konan er endanlega búin að fá nóg og trúir ekki lengur loforðum um að allt eigi eftir að verða betra.“

Ég held að stjórnarþingmenn skilji hversu alvarleg trúnaðarbrotin gagnvart kjósendum hafa verið og ef hlutverkunum væri snúið við þá myndu þau öll greiða atkvæði með vantrauststillögunni rétt eins og núverandi forsætisráðherra gerði árið 2011. Ég efast hins vegar um að stjórnarliðar geti horft í eigin barm og haft hugrekki til þess að hlusta á eigin sannfæringu, þá sannfæringu sem þau myndu sýna í stjórnarandstöðunni, því þótt skoðanakannanir eða undirskriftasafnanir séu ekki næg rök fyrir vantrausti einar og sér eru tilefnin á bak við þær það augljóslega. Tilefnið til þess að fólk safnast saman og skrifar undir undirskriftalista um vantraust er til staðar, augljóslega.

Forseti, kæru þingmenn og aðrir Íslendingar. Spyrjum okkur þessarar einföldu spurningar: Eigum við í alvörunni að þurfa að umbera forsætisráðherra með öll þau spillingarmál og lögbrot á bakinu sem raun ber vitni? Er það sannfæring ykkar sem þingmanna samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem þið unnuð drengskaparheit að? Er hegðun ríkisstjórnarinnar gagnvart réttarríkinu og störfum þingsins eitthvað sem þið mynduð vilja sjá sem almennir borgarar í ykkar daglega amstri að borga leigu og ofurvaxtalán? Ég veit að þingmenn sem starfa hérna vilja þeirri þjóð sem þau starfa fyrir allt hið besta. Það þekki ég af reynslu og kynnum við ykkur öll en þrátt fyrir bestu viðleitni heppnast það hins vegar ekki alltaf. Slys gerast, rangar ákvarðanir eru teknar og stundum gengur það svo langt að lög eru brotin. Þá er það grundvallaratriði í réttarríki að fólk með völd axli ábyrgð og hlaupist ekki undan henni. Tilhneigingin er hins vegar sú að varðhundar valdsins stökkva á sviðið og gelta eins hátt og þeir geta á alla sem reyna að benda á hið augljósa; að keisarinn er ekki í neinum fötum.

Varðstaðan um völdin er orðin mikilvægari en réttarríkið og þegar það birtist okkur jafn oft og augljóslega og það hefur gerst í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna þá hefur það áhrif á traust og trú fólks, traust og trú sem er nauðsynleg til þess að hægt sé að sinna viðkvæmustu málum samfélagsins á heiðarlegan hátt, því hversu velviljaðir og heiðarlegir sem ráðamenn eru þá litast öll mál af trausti fólks, því vantraust skemmir öll góð mál. Munu stjórnarliðar hlusta og skilja og fylgja sannfæringu sinni? Mér finnst það ólíklegt satt best að segja en ég kalla eftir umræðunni í dag til þess að við getum öll áttað okkur á því af hverju stjórnarliðar skilja ekki vantraustið sem birtist okkur öllum hinum gagnvart forsætisráðherra og ríkisstjórn hans.