154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[18:15]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hér yrði samþykkt vantraust á ríkisstjórn og hún myndi breytast í starfsstjórn, telur hv. þingmaður að það myndi greiða fyrir því að hér væru stunduð ábyrg ríkisfjármál, að Seðlabankinn fái mikla trú á því sem er að gerast í stjórnmálunum þannig að hann treysti sér til að fara að lækka stýrivexti og það dragi úr verðbólgu eða myndi hann ætla að það væri upplausn í stjórnmálunum, að hér væri ekki hægt að treysta því að ábyrgum kjarasamningum yrði fylgt eftir? Telur hv. þingmaður þetta líklegt? Og heyrði ég rétt hjá hv. þingmanni að hann styðji vantraust á ríkisstjórnina en ætlist samt til að hún klári öll þessi stóru og mikilvægu mál sem er svo mikilvægt að við klárum fyrir þjóðina af því að nægur tími væri fram að kosningum fyrir starfsstjórn til að klára málin af því að kosningarnar væru ekki fyrr en í haust? Hér fer ekki saman hljóð og mynd.