154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[18:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sé bara stoltur af verkum þessarar ríkisstjórnar og af verkum Framsóknarflokksins í þessari stjórn. Mér heyrðist það a.m.k. hér áðan. Ég vil þá spyrja hann: Er hann jafn stoltur af því hvernig þessi ríkisstjórn hefur tekið á heilbrigðismálum, hvernig staðan er í heilbrigðismálum í dag? Er hann jafn stoltur af því hvernig tekið hefur verið á kjörum þeirra sem verst hafa það, öryrkja og aldraðra? Ætlar hann að vera svo stoltur að hann geti komið hér upp og sagt að núna, þegar búið er að semja á almennum vinnumarkaði, muni hann sjá til þess að öryrkjar fái strax nákvæmlega sömu samninga og voru gerðir þar og sömu upphæðir. Ég efast um það. Er hann líka stoltur af því að búið er að boða til mótmæla hér á Austurvelli á morgun af Grindvíkingum vegna þess að þeir eru ósáttir við afgreiðslu ríkisstjórnarinnar og það hvernig staðið er að uppkaupum húsa? Er hann stoltur af þessu öllu?