154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[18:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ítreka það fyrir hv. þingmann að ég er gríðarlega stoltur af störfum þessarar ríkisstjórnar. Er allt fullkomið og er hægt að nefna einhver dæmi þar sem hlutir gætu farið betur? Að sjálfsögðu. Bæði þurfum við sem erum í stjórnmálum alltaf að gæta okkar á því að vinna að því að gera hlutina betri og kerfin okkar þurfa auðvitað að gera það líka. Af því að hv. þingmaður nefndi sjúkraþjálfara þá er það nú bara þannig að hver og einn getur farið sex sinnum til sjúkraþjálfara án þess að fá tilvísun frá lækni. Það er samtal í gangi við sjúkraþjálfara. Við erum á fullri ferð að bæta stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Engin ríkisstjórn hefur sett aðra eins fjármuni í að byggja upp heilbrigðiskerfið og við höfum gert á liðnum árum, aldrei, að ekki sé talað um þá gríðarlegu fjármuni sem við erum að verja í að byggja húsnæði og umgjörð heilbrigðiskerfisins. Er ég stoltur af því? Já, ég er gríðarlega stoltur af því.