154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[18:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst mikilvægt að koma hérna upp og spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hann talar um að það sé vanvirðing við þjóðina að ræða hér vantraust og sakar okkur um að vera að þessu einungis af einhverjum loddara- og leikaraskap og að við séum að nýta þingsalinn sem einhvers konar leikhús, hvort hann telji það ekki vanvirðingu við þjóðina að setja mann í embætti forsætisráðherra sem hefur svona ótrúlega lítið traust í samfélaginu til að sinna því mikilvæga hlutverki, hvort það sé ekki vanvirðing við þjóðina að virða algjörlega að vettugi allar þær undirskriftir sem hefur verið safnað og það að nú kemur fram í nýrri könnun að sjö af hverjum tíu eru neikvæðir í garð ríkisstjórnarinnar. 73% vantreysta forsætisráðherra. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum að eiga þetta samtal hér um vantraust. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki bara við þingmenn hérna í þessu húsi, þetta snýst um þjóðina alla. Við erum ekki bara að tala saman við hvert annað. (Forseti hringir.) Við erum að tala við þjóðina. Til þess er þessi umræða.