154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[19:29]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra talar um stöðugleikann. Verðbólga í dag er 6,8% og fór vaxandi í síðastliðnum mánuði, hækkaði um 0,2%. Stýrivextir eru 9,25%. Það er nánast allt botnfrosið. Að tala um þetta sem stöðugleika; alla vega eins og ég skil stöðugleika þá er þetta ekki stöðugleiki, svo mikið er víst. Kannski að ráðherra geti útskýrt það nánar. Hann talar um að í málefnum útlendinga hafi náðst árangur. Þegar ég frétti af frumvarpi hæstv. fyrrverandi ráðherra, Jóns Gunnarssonar, hélt ég að það væri hin endanlega stefna ríkisstjórnarinnar. Það kom síðan inn í nefnd sem ég var í og þegar ég sá hvers konar frumvarp það var veðjaði ég upp á að það kæmi nýtt frumvarp núna í ár. Stefnuleysið var algjört í þeim málaflokki og er enn þá. En nú kemur fram í Viðskiptablaðinu og nýrri fjármálaáætlun að það eigi að spara um milljarða króna í þessum málaflokki. Á sama tíma talar ráðherra um að það eigi að auka inngildingu o.s.frv., að gera vel í þessum málaflokki. Það fer ekki alveg saman.

Þessi vantrauststillaga er í formi þingsályktunartillögu og ef hún er samþykkt þá ber ríkisstjórninni að fara frá og er vilji Alþingis skýr; ríkisstjórninni ber að fara frá. Önnur þingsályktunartillaga var samþykkt vorið 2021 og var henni beint til félagsmálaráðherra, um að skila til þingsins frumvarpi um hagsmunafulltrúa aldraðra ekki síðar en í mars 2022. Ein af rökunum fyrir þessari vantrauststillögu eru þau að hæstv. félagsmálaráðherra hefur ekki skilað þessu frumvarpi til þingsins. Það eru ein af þremur kjarnarökum fyrir því að þessi vantrauststillaga er lögð fram að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur vanvirt þingið með því að fara ekki að vilja þingsins í þingsályktun.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Hvenær ætlar hann að skila inn þessu frumvarpi um hagsmuna fulltrúa aldraðra?