154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[20:13]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það væri svo innilega óskandi að þurfa ekki að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Það væri óskandi vegna þess að það eru ótrúlega mörg brýn samfélagsmál sem við þyrftum að hafa andrými og fókus til þess að ræða og bregðast við. En viðvarandi krísuástand þessarar ríkisstjórnar, þessi viðvarandi heimatilbúni vandi gerir þau fullkomlega vanhæf til að díla við neitt annað en eigin glundroða. Ríkisstjórninni er hreinlega ekki treystandi til að klára kjörtímabilið. Enn ein hrókeringin og uppstokkunin á ráðherrum er ekki að vinna með þeim. Fólk er orðið þreytt. Það er orðið þreytt á þessum skrípaleik. Það sjá það allir að þetta er löngu hætt að snúast um hagsmuni almennings. Þetta snýst um að ríghalda í völdin, valdanna vegna. Hér starfa þrjár mismunandi stjórnir með þrjár mismunandi stefnur og þetta hefur verið staðan í dágóðan tíma.

Þetta kjarnar í raun og veru vandann sem ríkisstjórnin á við að etja. Hún nær ekki einu sinni saman um litlu málin, hvað þá stóru. Þetta leiðir af sér að hér ríkir ákveðið stjórnleysi þar sem spilling, frændhygli og visst siðleysi fær að grassera með litlum sem engum afleiðingum og fólk verður bara samdauna, eins og þetta sé einhvern veginn eðlilegt ástand. Í kjölfarið gerist lítið í þeim mikilvægu málum sem vinna þarf hér á þinginu og traust almennings til lýðræðisins fer dvínandi. Þetta er í raun alvarlegasti glæpur þessarar ríkisstjórnar, hversu mikið hún hefur stuðlað að dvínandi trausti fólks til stjórnmálanna og til lýðræðisins og hversu slétt sama henni virðist vera um stöðuna, eins og það skipti bara engu máli. Þetta skeytingarleysi kristallaðist í þeirri ákvörðun að gera formann Sjálfstæðisflokksins að forsætisráðherra þrátt fyrir það gríðarlega vantraust sem hefur ríkt til hans í dágóðan tíma. Slíkt skeytingarleysi felur í sér gríðarlega hættu. Mikið vantraust til stjórnmála, til stjórnmálamanna og lýðræðislegra stofnana getur verið undanfari þess að lýðræðisleg gildi víki fyrir stjórnlyndum þjóðernispopúlisma. Þetta er stefna sem við erum búin að sjá. Við erum búin að sjá þetta gerast í mörgum löndum í kringum okkur. Þetta er raunveruleg hætta sem steðjar að okkur. Þess vegna skiptir traust ofboðslega miklu máli. Það er grunnurinn sem við byggjum allt annað á og ef sá grunnur er ekki í lagi, ef hann er ekki til staðar, þá hrynur allt hitt.

Hlutverk okkar þingmanna og hlutverk ríkisstjórnarinnar er að hlusta á raddir almennings, ekki bara raddir þeirra sem eru innan hennar búbblu á samfélagsmiðlum eða annars staðar heldur á raddir almennings, gefa áhyggjum hans gaum, stuðla að upplýstri umræðu og vinna að lausnum með gagnsæjum ferlum og með skýrri aðkomu almennings. Eitt af meginhlutverkum stjórnvalda er að tryggja jarðveg eða öruggan grunn sem gerir okkur kleift að þróa samfélag sem byggist á trausti og samvinnu. Traust er lím samfélagsins. Það heldur okkur saman og gerir það að verkum að við getum byggt upp betra samfélag til framtíðar.

Við stöndum frammi fyrir gríðarstórum og flóknum verkefnum, verkefnum sem krefjast þess að hér sé sameinuð ríkisstjórn með skýra sýn; loftslagsbreytingar, tæknibreytingar, sívaxandi ójöfnuður, heilsufarsvandamál, þunglyndi, ofbeldi, stríð, tilgangsleysi og fjöldinn allur af flóknum viðfangsefnum sem við getum ekki brugðist við með ásættanlegum hætti ef þau sem semja og móta leikreglur samfélagsins eru gjörsamlega ófær um að sinna því hlutverki af heilindum og í þágu almennings. Þannig ríkisstjórn ber hreinlega að víkja og það er ástæðan fyrir þessari vantrauststillögu. Ríkisstjórnin verður að víkja.