154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[20:18]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því í ræðu minni að fjalla um ástæður fyrir því að þessi vantrauststillaga er lögð fram. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra spurðu til hvers þessi tillaga væri lögð fram og hver væru rökin fyrir henni. Ein helstu rökin eru þau að eftir kosningar í september 2021 töldu ríkisstjórnarflokkarnir sig hafa fengið umboð til að sitja áfram við völd. Í hvaða ríkisstjórn? Jú, í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það var það umboð sem var lesið úr kosningunum 25. september 2021.

Þá var saminn sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta er merkilegt plagg að mörgu leyti. Það er merkilegt fyrir eitt — og mig hefur lengi langað að skrifa grein sem heitir „Besta ríkisstjórn í heimi“. Loftslagsmálin; það er fjórum sinnum talið upp, á bls. 9 minnir mig, að þau ætli að vekja athygli á heimsvísu í loftslagsmálum, með leyfi forseta:

„Við ætlum að setja loftslagsmálin í forgang. […] Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins.“

Önnur tilvitnun, með leyfi forseta:

„Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 …“

Ísland verði í forystu í orkumálum á alþjóðavísu. Grænt Ísland og kolefnislaust samfélag myndi vekja athygli víða um heim. — Og svona heldur þetta áfram. — Við ætlum að stefna að því að það verði grænt atvinnulíf hér í fremstu röð í heiminum.

Þetta plagg sem var samið eftir kosningarnar 25. september 2021 er ekki lengur í gildi. Það er komin ný ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Umboðið sem var veitt í síðustu kosningum, það umboð sem ríkisstjórnarflokkarnir lásu út úr þeim og töldu sig hafa, það var umboð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, ekki núverandi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Það umboð er ekki fyrir hendi. Menn geta ekki endurlesið niðurstöðu kosninganna og breytt túlkuninni allt í einu. Það var ein niðurstaða og það var ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. En hún er nú horfin á braut til annarra verka og hefur boðið sig fram til forseta Íslands.

Önnur rök eru þau að núverandi forsætisráðherra braut lögin sem fjármálaráðherra. Við söluna á Íslandsbanka fyrir ári síðan seldi hann föður sínum hlut í bankanum og það er brot á 3. gr. í II. kafla stjórnsýslulaga um vanhæfi. Ráðherra getur ekki selt föður sínum hlut í banka. Það er lögbrot. Það vissu allir frá upphafi og það þurfti álit umboðsmanns Alþingis til að senda það skriflega til þingsins. Það voru vissulega brotin önnur lög við þá sölu en það eru ákvæði í lögum sem nú er reynt að fella úr gildi með frumvarpi til laga um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka, sem er áhugaverð lesning. Þar er meira að segja sett í 5. gr. frumvarpsins að fella úr gildi II. kafla stjórnsýslulaga um vanhæfisástæður ef útboðið er markaðssett, sem það var fyrir ári síðan. Þannig að maður getur lesið það frumvarp og séð hver brotin eru. Hann fór hins vegar frá völdum sem fjármálaráðherra og varð utanríkisráðherra. Það er mjög sérstakt hvernig menn axla ábyrgð í þessari ríkisstjórn. Síðan er hann orðinn forsætisráðherra á grundvelli sama stjórnarmeirihluta. Það er ekki að axla ábyrgð. Hann missti umboðið sem fjármálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og þá hefur hann varla umboð til að vera forsætisráðherra ef við lesum úr hinu lýðræðislega umboði sem gefið var 21. september 2021.

Og á síðasta sumri bannaði matvælaráðherra hvalveiðar um sumarið. Hún tók sig til nokkrum dögum áður en hvalveiðar áttu að hefjast og bannaði hvalveiðar. Útgerðin var búin að undirbúa, gera sjóklárt, hátt í 200 manns búin að ráða sig til skips og til aðgerða á sjávarfanginu þegar það kæmi að landi. Nei, hún bannaði hvalveiðar. Hún er sennilega búin að valda ríkinu hundruð milljóna skaðabótaskyldu með því. Hún braut meðalhófsreglu, lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og braut stjórnsýslulögin. Það mál á eftir að leiða til lykta fyrir dómstólum þegar kemur að skaðabótakröfunni. Og það lá algerlega fyrir frá upphafi að hún væri að brjóta lög. Ég er hérna með lög um hvalveiðar frá 1949 og það liggur algerlega fyrir. Ráðherrann hefur heimild skv. 4. gr. til að gera ákveðna hluti með reglugerð. Ráðherrann getur m.a. bannað hvalveiðar á tilteknum svæðum, hann getur takmarkað veiðar í ákveðinn tíma, hann getur takmarkað heildarveiðimagn, veiðimagn ákveðins fyrirtækis, leiðangurs eða landsstöðvar, takmarkað veiðibúnað o.s.frv. En hann getur ekki bannað hvalveiðar algerlega. Sú heimild er ekki veitt í lögum. Ef það á að banna hvalveiðar við Íslandsstrendur þá er það gert hér á Alþingi. Ráðherra getur ekki gert það. Það er alveg kristaltært. Það er Alþingi Íslendinga sem þarf að að taka ákvörðun um það í löggjöf. Af hverju þarf að gera það með lögum og með hvaða rökum? Jú, í ljósi atvinnufrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsis sem er í landinu, sem eru grundvallarmannréttindi, svo að allir geti séð sér farborða, þá eiga allir að geta stundað þá vinnu sem þeir kjósa. Þennan rétt má bara takmarka með lögum og það þurfa að vera almannahagsmunir þar að baki.

Hæstv. matvælaráðherra þáverandi og núverandi innviðaráðherra bannaði hvalveiðar, braut stjórnarskrárákvæði, braut gegn atvinnufrelsi fyrirtækisins og þeirra einstaklinga sem ætluðu að stunda hvalveiðar, sem eru grundvallarmannréttindi, ekki með lögum, heldur með eigin ákvörðun, með ákvörðun ráðherra. Og hún færði ekki rök fyrir því sem geta flokkast undir almannahagsmuni. Það þarf lög og almannahagsmuni. Þannig að þetta er alvarlegt brot. En núna er búið að gera fyrrverandi hæstv. matvælaráðherra að hæstv. innviðaráðherra. Við í minni hlutanum í þinginu teljum að ráðherra þurfi að axla ábyrgð, að henni sé ekki stætt að vera ráðherra í ríkisstjórn Íslands á grundvelli þess að hún braut atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Fjórða atriðið, þ.e. þriðji ráðherrann sem hefur brotið af sér, að við teljum, eða ekki farið að lögum — það voru reyndar ekki lög þar á bak við heldur var það þannig að vorið 2021, á síðasta kjörtímabili, samþykkti Alþingi Íslendinga einróma þingsályktunartillögu um að hæstv. félagsmálaráðherra skyldi fyrir lok mars 2022 leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um hagsmunafulltrúa aldraðra. Ég spurði hæstv. félagsmálaráðherra hvernig stæði á því að það var ekki gert. Jú, hann vísaði í starfshóp. Starfshópurinn teldi að vilji Alþingis skipti ekki máli og teldi ekki tímabært að gera það. Alþingi ræður í þingræðisríki. Við erum æðsta stofnun þjóðarinnar og það er ekki einhver starfshópur ráðherra sem fer að segja okkur fyrir verkum ef við viljum eitthvað. Honum bar að gera þetta og hann fór ekki að vilja Alþingis í því máli. Hann hefur komið hérna trekk í trekk og sagt að þessi blessaði starfshópur sem hann skipaði sé annarrar skoðunar en Alþingi Íslendinga og ósammála þeirri atkvæðagreiðslu sem átti sér stað vorið 2021. Það var enginn að biðja ráðherrann um álit á því hvenær hann ætti að skila frumvarpinu. Hann átti að gera það, hann átti að fara að vilja okkar. Hann situr í skjóli okkar og við erum vinnuveitendur hans sem kjörnir fulltrúar. Nei, hann fer ekki eftir því og þess vegna er honum ekki sætt sem félagsmálaráðherra lengur í skjóli þingsins, alveg með sama hætti og ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt þá ber ríkisstjórninni að fara frá. Ráðherra sem fer ekki að vilja þingsins varðandi það að skila frumvarpi, hann á að fara frá líka. Hann hefði ekkert þurft að mæla fyrir þessu frumvarpi hafi hann ekki viljað það. Hann hefði einfaldlega getað sent það til forseta þingsins með afriti til formanna þingflokkanna og sagt: Hér er frumvarpið sem mér var gert að semja og senda til þingsins samkvæmt þingsályktuninni sem samþykkt var vorið 2021. Það stendur ekki í þessari þingsályktun að honum beri að mæla fyrir málinu. Við þingmenn og þingflokkar hefðum þá fengið þetta frumvarp og hefðum getað mælt fyrir því í þinginu og það hefði fengið þinglega meðferð. Nei, hann kýs frekar að hunsa vilja þingsins og skila ekki inn frumvarpi sem honum bar að gera. Þess vegna er honum ekki sætt sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Þetta eru rökin sem eru fyrir þessari vantrauststillögu, hvað varðar ráðherrana a.m.k.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa úr ræðu þingmanns sem flutt var 13. apríl 2011 um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Við erum að færa ríkisstjórninni skilaboð frá þjóðinni um að henni er ekki treyst. En þetta snýst ekki einungis um ríkisstjórnina. Með kröfu um kosningar erum við að bjóða nýtt upphaf og gefa fólkinu í landinu kost á því að velja á milli ólíkra leiða út úr því ástandi sem hér ríkir.

Það sem við erum að segja er að þingið þurfi að endurheimta trúnað og traust kjósenda, allra þeirra sem gera þá einföldu kröfu að Alþingi vinni í þeim málum sem mikilvægust eru fyrir þjóðina hverju sinni.“

Síðan segir í ræðu þessa þáverandi ágæta þingmanns, með leyfi forseta:

„Bersýnilega nær tillaga um vantraust ekki fram að ganga jafnvel þótt hún njóti stuðnings allra stjórnarandstöðuþingmanna. En staðreynd er að margir í stjórnarliðinu hafa beinlínis gefið tilefni til þess að leggja slíka tillögu fram.“

Og hver skyldi nú hafa flutt þessa ræðu á sínum tíma, 13. apríl 2011? Jú, hæstv. forsætisráðherra í dag, þá hv. þm., Bjarni Benediktsson. Hann var einmitt að gagnrýna þessa tillögu okkar í dag og þær forsendur sem við erum akkúrat að nota, þær sömu og þegar hann flutti tillöguna 2011, og þær eru að við þurfum að fara í kosningar til að endurheimta trúnað og traust kjósenda. Það gerum við með því að efna til kosninga 7. september næstkomandi. Það eru rökin, líkt og var sagt í ræðu 13. apríl 2011. Það er alveg augljóst mál að þau rök sem liggja fyrir í þeirri tillögu sem hér er til umræðu eru bæði málefnaleg og skýr og nauðsynlegt er að ræða þau. Núverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur ekki það umboð sem síðasta ríkisstjórn hafði, sem byggði á kosningunum 25. september 2021.

Annað sem er vert að benda á er að í gær, 16. apríl, féll dómur í Mannréttindadómstól Evrópu þar sem fjallað er um lögmæti kosninganna og það er í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Ég vil taka fram að ég er ósammála þessum dómi en ég tel óþarfa að vera að fara ofan í það. Ísland var dæmt brotlegt gagnvart ákvæðum mannréttindasáttmála um frjálsar kosningar. Það má virkilega skoða þennan dóm í því ljósi að þá sé tilefni til þess að efna til kosninga í haust á grundvelli hans. Þetta er mikilvægur samningur en það breytir því ekki að það væri vert að skoða þennan dóm. Það eru líka rök í málinu þó að ég taki ekki undir það. Ég vil bara benda á það til að bæta í sarpinn hvað varðar rökin.

Varðandi úrlausnarmál ríkisstjórnarnarinnar, þ.e. ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem hún hefur verið með á síðustu misserum, á þessu kjörtímabili, og eru ekki leyst enn í dag — við getum tekið hælisleitendamálin. Hið hræðilega og illskeytta og slæma frumvarp Jóns Gunnarssonar, þáverandi dómsmálaráðherra, sem lagt var fram í fimmta eða sjötta sinn á síðasta þingi var vissulega samþykkt sem lög að lokum síðasta vor. Þegar ég frétti af þessu frumvarpi hélt ég að þetta væri alveg hræðilegt frumvarp og þetta myndi þá endanlega leysa það mál og við þyrftum ekki að fjalla um málið aftur á kjörtímabilinu. En þegar það kom síðan í nefnd sem ég er í, allsherjar- og menntamálanefnd, sá maður að þetta var ekki neitt neitt svo sem. Þetta eru einhverjar beiðnir úr stjórnsýslunni til að auðvelda vinnuna. Vissulega voru þarna ákvæði sem gátu brotið í bága við mannréttindasáttmála Evrópu, eins og 3. gr. þar sem Ísland ætlar að koma fólki í örbirgð án þess að veita því þjónustu. Það hefði getað endað fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. En það var ekki endanleg lausn á því máli. Í því frumvarpi endurspeglaðist algerlega togstreita og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í ákveðnum greinum. Hún náði ekki að semja skýra stefnu í ákveðnum málum í efnisatriðum þess frumvarps.

Aftur er komið frumvarp um sama málaflokk af því að það tókst ekki að semja um hann á síðasta þingi. Við erum aftur komin með lög um breytingu á lögum um útlendinga. Núna á að færa málaflokkinn til samræmis við hin Norðurlöndin, sömu vandamál og við áttum við að stríða á síðasta þingi. Það er nú öll stefnan í þessum mikilvæga málaflokki sem kostar á þessu ári 23 milljarða. Það kemur fram í fjármálaáætlun þessa árs að núna á að fara að spara í þessum málaflokki um milljarða. Það er ætlunin. Og á sama tíma kemur hæstv. félagsmálaráðherra og segir að það sé mikilvægt að gera vel í þessum málaflokki og stuðla að inngildingu og guð má vita hvað, á sama tíma og við vorum í þriðja sæti í því að taka á móti hlutfallslega flestum í Evrópu árið 2022 hvað varðar hælisumsóknir — og það án Úkraínu. Það voru einungis tvö lönd fyrir ofan okkur. Við vorum hlutfallslega í þriðja sæti í allri Evrópu í því að taka á móti umsóknum frá hælisleitendum, einangruð eyja hér uppi í Norður-Atlantshafi með 400.000 íbúa að taka á móti hlutfallslega flestum. Það er árangurinn af stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í þessum mikilvæga málaflokki. Miðað við Norðurlöndin erum við hlutfallslega að taka á móti margfalt fleiri, sjö eða átta sinnum fleiri en hin Norðurlöndin; 582 á hverja 100.000 íbúa á meðan Svíþjóð var með 133, Danmörk 76 og Noregur með 85 á 100.000 íbúa. Við vorum með 582 á 100.000 íbúa árið 2022. Algjört stjórnleysi í málaflokknum og kostar okkur milljarða.

Það er ekki hægt að tala um stefnuleysi stjórnvalda og þann stöðugleika sem hæstv. félagsmálaráðherra, sem á eftir að skila okkur frumvarpi um hagsmunafulltrúa aldraðra — hann talar um að verðbólga fari lækkandi þegar verðbólgan er í dag 6,8% og hækkaði milli mánaða um 0,2%, frá 1. febrúar til 1. mars sl. Hann sagði að hún færi lækkandi þegar Seðlabankinn er með þær upplýsingar að hún hafi hækkað um 0,2%. Og að það sé stöðugleiki og mikill hagvöxtur fram undan og guð má vita hvað, allt sé litað hér rósrauðum litum þegar stýrivextir eru í dag 9,25%, einir allra hæstu stýrivextir í Evrópu. Þessi ríkisstjórn er ekki að taka á verðbólgunni. Hún er ekki að beita sér í aðgerðum gegn verðbólgunni og það er miður. Þess vegna eru stýrivextir 9,25%. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því. Hún er ekki að taka þátt í baráttunni gegn verðbólgunni eins og henni bar. Af hverju? Jú, út af eigin stefnuleysi. Þetta stefnuleysi og alger óstjórn mun sennilega leiða til þess að við munum festast í verðbólgu. Hún er hækkandi og það eru ekki líkur til þess að Seðlabanki Íslands muni lækka stýrivexti 8. maí næstkomandi. Það er ekkert í kortunum sem bendir til þess. En við skulum samt vona að það gerist. Samt er ríkisstjórnin að tala um gríðarlegt góðæri fram undan og hvað það er mikil velmegun í landinu. Á meðan þurfa heimilin í landinu að borga vexti sem eru vel yfir 10%, svo enginn ræður við — stórkostleg kjaraskerðing.

Ég mun segja já við þessari tillögu sem ég er meðflutningsmaður að og ég skora á meiri hluta þingsins að gera það sama.