154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

virðisaukaskattur og kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

917. mál
[22:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er bara með einfalda og kannski allt of vitlausa spurningu. Það kemur mér á óvart að hér sé í rauninni eitt frumvarp um þrjú aðskilin mál; virðisaukaskatt vegna sölu á þjónustu milli landa, upplýsingagjöf ökutækjaleigna til Skattsins um nýtingu á virðisaukaskattsívilnun og kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbíla. Mig langaði bara að forvitnast — mér skilst að það sé kallað bandormur þegar þú breytir fullt af hlutum — hvers vegna verið er að setja þessi þrjú algerlega óskyldu mál saman í eitt. Megum við kannski búast við því að leiðin til að stoppa allt málþóf á næsta ári verði að hæstv. ráðherra komi bara með eitt frumvarp og komi því svo í gegnum þingið? Það væri kannski svolítið þykkt, ég veit það ekki, en það gæti verið leiðin.