154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:21]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fyrirgefa hv. þingmanni það að spyrja mig út í þessi mál, það er í góðu lagi mín vegna. Það er síðan annað mál hvort mér muni takast að tengja það við fjármálaáætlun á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðherra. Hv. þingmaður er hér að velta fyrir sér orkumálum og ég vil leggja áherslu á að á næstu 18 mánuðum, til loka þessa kjörtímabils, munu ríkisstjórnarflokkarnir hér eftir sem hingað til horfa til þess að fara eftir faglegum ferlum þegar kemur að orkumálum, þegar kemur að virkjunum, þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eitt af því sem ég hef bent á í umræðunni er að það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda felur ekki bara í sér að ráðast í orkuskipti; þau eru kannski um 50% af því sem snýr að beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda sem hefur með orku og orkuskipti að gera, 50% eru eitthvað annað. Ég hef því lagt áherslu á það sem hæstv. umhverfisráðherra er að vinna að núna, þ.e. að koma með nýja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Mér skilst að hún sé á lokametrunum og þar verður væntanlega tekið heildstætt utan um þessi mál, hvort sem það snýr að orku, landbúnaði, úrgangi eða iðnaði eða hvað það er. Á næstu 18 mánuðum mun ríkisstjórnin hér eftir sem hingað til fara eftir faglegum ferlum. Þar má nefna rammaáætlun. Þar má nefna löggjöfina um umhverfismat, löggjöfina um vatnamál, mannvirkjalöggjöfina, skipulagslöggjöfina og annað slíkt sem býr til þá umgjörð sem við þurfum til að geta tekið ákvarðanir í þessum málum.