154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég biðst forláts á að hafa farið kannski aðeins út fyrir stífan ramma umræðunnar en þetta skiptir engu að síður máli hvað varðar fjármuni sem til ráðstöfunar verða til málaflokka hæstv. ráðherra. En í þessu samhengi langar mig að spyrja hvaða áhrif áform um lokuð búsetuúrræði hafa á útgjöld á málasviðum ráðherrans miðað við þær fyrirætlanir sem ríkisstjórnin hefur uppi í þeim efnum. Hefur það verið greint og hvaða áhrif má áætla að verði vegna þess atriðis eins og sér? Það má áætla að einhverjir sem hingað sækja alþjóðlega vernd færist til innan kerfisins hvað varðar umsjón og utanumhald og stuðning sem veittur er.