154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:43]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Það er nú ágætt að það hilli undir margboðuð lok, bæði í uppfærslu samgöngusáttmálans og skýrslunnar um Hvassahraun, enda hlýtur það að vera áherslumál eins og kom fram í máli hæstv. innviðaráðherra. Það er mjög mikilvægt að það gerist og það sé hluti af vinnu hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem hér er með samgönguáætlun til umfjöllunar. Þetta þarf allt að passa saman og svo sem engin tíðindi í því. En það er auðvitað líka þannig að með nýjum ráðherra koma nýjar áherslur eins og hér mátti heyra. Ég er ekki frá því að þær séu meira í anda þess sem við þurfum að gera, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að auka lífsgæði fólks með þéttum og góðum almenningssamgöngum og taka tillit til efnahagsstöðu fólks með tilliti til þessa risavaxna málaflokks.