154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:58]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að horfa til þessa með heildstæðum hætti eins og hv. þingmaður nefnir. Við erum ekki bara að tala um afmörkuð viðfangsefni heldur í raun grundvallarhreyfiafl í þróun efnahagslífsins. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á það í okkar sýn að styðja við framboðshliðina. Við viljum gera fleiri samninga við sveitarfélög um uppbyggingu húsnæðis. Nú hafa þessi þrjú skrifað undir og við viljum fjölga þeim. En til framtíðar litið er t.d. verið að vinna á vettvangi velferðarnefndar að húsnæðisstefnu fyrir landið til næstu 15 ára ásamt fimm ára aðgerðaáætlun og það skiptir máli að við séum með sameiginlega framtíðarsýn og að þingið komi að því með myndarlegum hætti.

Það eru fleiri mál til umfjöllunar á þinginu, frumvarp með breytingum á húsaleigulögum, frumvarp sem snýr að heimildum sveitarfélaga til að setja tímabundnar uppbyggingarheimildir og ég nefni líka aðgerðir í tengslum við gerð langtímakjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem miða að þessu, áframhaldandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, allt að 1.000 íbúðir á ári sem við ræddum hér með 7–9 milljarða stofnframlögum til viðbótar við hlutdeildarlánin. Þetta eru fjölþættar aðgerðir sem koma víða við enda held ég að þetta sé viðfangsefni af þeirri stærðargráðu að það verði ekki leyst með einu svari.