154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:11]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera grein fyrir stóru línunum í orkumálum og umhverfisvernd, í hans málaflokkum. Það er kannski ekki alveg gott að gera sér grein fyrir því, hvað varðar seinni málaflokkinn, hvort um aukningu sé að ræða. Mér sýnist ekki en hæstv. ráðherra getur væntanlega farið betur yfir það.

Mig langar að nýta þetta tækifæri til að spyrja hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra út í það hvenær uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum lítur dagsins ljós. Hún er náttúrlega algjört lykiltæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi samkvæmt skuldbindingum okkar sem eru þó nokkrar, sem sagt skuldbindingar sem við þurfum sjálf að sjá um hér á landi. Ég á von á því að það þurfi að ræða þá aðgerðaáætlun og þær aðgerðir ítarlega hér á Alþingi þegar þar að kemur. En eins og við vitum, og höfum svo sem rætt hér í umfjöllun um fjármálaáætlun við aðra hæstv. ráðherra, hanga allar þessar aðgerðir saman. Við erum að tala um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í hv. umhverfis- og samgöngunefnd liggur samgönguáætlun frá hæstv. innviðaráðherra og einhvern veginn verða þessar áætlanir að spila saman. Mig fýsir að vita hvenær við sjáum aðgerðaáætlun sem sýnir okkur að hægt sé að ná markmiðunum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og svo er það kolefnishlutleysið sem við höfum sett okkur markmið um fyrir 2040. Ég ætla að nýta fyrri spurninguna mína í þetta.