154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:54]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á þessa mikilvægu atvinnugrein okkar og hversu mikinn gjaldeyri hún kemur með inn í þjóðarbúið. Nú er það svo að tæplega 9% af landsframleiðslu koma frá ferðaþjónustu og ríflega 22.000 manns starfa við ferðaþjónustu. Þá er það að sjálfsögðu mjög mikilvægt að leggja áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun og í nýrri ferðamálastefnu er sérstaklega tekið á því vegna þess að til þess að auka gæði í greininni, stuðla að aukinni verðmætasköpun og öllu sem tengist því, þá er svo mikilvægt að styðjast við rannsóknir. Þá get ég glatt hv. þingmann með því að við erum með sérstaka áherslu á það og svo erum við að sjálfsögðu að leggja aukna fjármuni í það með þessari ferðamálastefnu. Það er gaman frá því að segja að ferðamálastefnan er mótuð af okkar færustu sérfræðingum á sviðinu. Við erum búin að fara hringinn í kringum landið, hitta helstu hagaðila til þess að þessi ferðamálastefna verði ákveðið súrefni inn í greinina. Þetta hefur verið einstaklega skemmtileg stefnumótun. Einnig vil ég nefna það, virðulegi forseti, að það er mjög mikilvægt til að mynda að við náum að viðhalda þessu beina flugi sem er nú komið inn á Norðurlandið, af því að þannig erum við að auka verðmæti og nýta innviði samfélaganna okkar enn betur. Þannig að ég og hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um það.