154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:54]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla hér um þau málefni sem heyra undir ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Fyrst langar mig að fjalla um hvernig ríkisstjórnin ætlar að gera framsæknum fyrirtækjum kleift að vaxa og dafna hér á landi ásamt frumkvöðlum og nýsköpun, fyrirtækjum sem leggja grunn að góðum lífsskilyrðum og hagvexti til framtíðar. Þar verða til aðlaðandi og vel launuð störf í atvinnugreinum sem ungt fólk er áhugasamt um, með háa framleiðni og fela í sér mikil tækifæri fyrir Ísland. Í heimsfaraldrinum voru endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrirtækja auknar verulega tímabundið. Í síðustu fjármálaáætlun var gert ráð fyrir að tímabundna aukningin á fjárheimildum félli alfarið niður en það gleður mig sérstaklega að greina frá því að við ætlum að festa aukinn stuðning í sessi, gera hann varanlegan og útfærslan mun koma með lagafrumvarpi í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra.

Stuðningur okkar við nýsköpun hefur margfaldast og við erum orðin samkeppnishæfari. Hann var 3,5 milljarðar kr. árið 2019 og er áætlaður 17 milljarðar kr. árið 2025. Þessi stuðningur hefur skilað árangri, enda um eiginlega fjárfestingu að ræða í rannsóknum og þróun sem skilar sér margfalt til baka. Fjárfesting fyrirtækjanna í rannsóknum og þróun hefur tvöfaldast á síðasta áratug og nemur nú tæpum 2% af landsframleiðslu og hefur skilað sér í nýjum lausnum, nýjum fyrirtækjum og nýjum tækifærum. Útflutningur hugverkaiðnaðar hefur á sama tímabili verið í stöðugum vexti. Á síðustu sex árum hefur útflutningur aukist um yfir 120 milljarða. Hugvitið er orðið að sterkri stoð í íslensku atvinnulífi. Við ætlum að byggja ofan á þennan árangur og sjá til þess að þessi aukna fjárfesting breytist í raunveruleg verðmæti. Við höfum unnið góða undirbúningsvinnu í samvinnu við OECD og munum byggja á henni í endurskoðun á regluverkinu sem boðuð er í fjármálaáætluninni til þess að bæta framkvæmdina á endurgreiðslum með m.a. betra eftirliti, reglulegum mælingum á árangri og einhverjum breytingum. Á tímabili fjármálaáætlunar er áætlað að 96 milljörðum verði varið til stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki. Þetta er stærsta einstaka verkefni stjórnvalda til að byggja upp fjórðu stoð íslensks efnahagslífs. Hún mun leiða okkur inn í nýja tíma en markmið mitt frá stofnun nýs ráðuneytis er að hugvitið verði okkar stærsta útflutningsgrein.

Meira þarf þó að koma til. Byggja á undir þennan nýja drifkraft vaxtar með öflugu stuðningsumhverfi. Nýta þarf krafta samkeppnissjóða til þess og í dag leikur Tækniþróunarsjóður lykilhlutverk í stuðningi við nýsköpun og vöruþróun ásamt öðrum. Margir sjóðir styðja við rannsóknir og menntun. Munar þar mestu um Rannsóknasjóð en tækifæri eru til að efla sjóði hins opinbera. Lögð er áhersla á endurskoðun á sjóðakerfi rannsókna og nýsköpunar í þágu einföldunar, aukinnar skilvirkni og betri þjónustu. Við unnum greiningu í ráðuneytinu sem hefur leitt í ljós að samkeppnissjóðir á vegum ríkisins eru a.m.k. 75. Við teljum þetta vera óþarflega marga sjóði og þess vegna stendur til að fækka sjóðum á vegum míns ráðuneytis á komandi árum. Það eru ekki mörg sem hafa yfirsýn yfir allan þennan fjölda, kannski ekki síst þeir umsækjendur sem gætu notið góðs af sjóðunum. Mikilvægt er að gera umhverfið skilvirkara og minnka yfirbyggingu, kostnað og umsýslu sem og draga úr fjölda stjórna í þessum sjóðum. Einn liður í því er að opna umsóknargátt sem gerir umsóknarferlið einfaldara og aðgengilegra. Samhliða minnkar yfirbygging sjóðanna og slagkraftur þeirra eykst sem og yfirsýn stjórnvalda yfir úthlutun til nýsköpunar.

Virðulegi forseti. Ör þróun á sér líka stað á sviði gervigreindar og netöryggis. Unnið er að aðgerðaáætlun í gervigreind, verið er að skipa nýtt netöryggisráð og búið er að stofna samstarfsvettvang á sviði fræðslu, menntunar og rannsókna á sviði netöryggis. Um þessi mál er fjallað í málaflokki 11.20 en þar eiga fjarskiptamál líka heima. Þar er helst að frétta að áfram er unnið hörðum höndum að ljósleiðaravæðingu landsins og bættu netsambandi á hringveginum.

Íslenskt samfélag á síðan allt undir að hér starfi öflugir háskólar. Þess vegna munum við áfram sækja fram í þágu háskólanna en framlög til háskólanna aukast um 1,4 milljarða kr. á milli áranna 2024 og 2025 og sú upphæð bætist ofan á milljarðsaukningu í fyrra. Þar að auki bætast í 600 millj. kr. frá fyrri fjármálaáætlun svo að hægt sé að byggja upp jarðræktarmiðstöð á Hvanneyri sem lengi hefur verið kallað eftir og mun gegna lykilhlutverki í þróun skólans á sjálfbærri matvælaframleiðslu. Alls munu framlög til reksturs háskóla aukast um 2,8 milljarða kr. til 2029 en með aukningunni er háskólum gert kleift að sækja fram á grundvelli nýrrar árangurstengdrar fjármögnunar sem ég kynnti síðasta haust, sem leggur áherslu á árangur og gæði og er fjármögnunarlíkan sem lengi hefur verið kallað eftir. Við munum fara nær Norðurlöndunum hvað varðar fjármögnun, hvernig við byggjum hana upp, þá hvata sem þar eru byggðir upp, tækifæri til fjarnáms, gæði og árangur sem og tækifæri til að fjölga nemendum. Við munum síðan bæta aðstöðu til kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindum og STEM-greinum og vinna áfram að auknu samstarfi og sameiningu háskóla. Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri eru í samningaviðræðum og fyrirhugað er að þeir muni sameinast rétt eins og stefnt er að sameiningu undir hatti sjálfstæðrar háskólasamstæðu á Háskólanum á Hólum með Háskóla Íslands. Viðræðurnar eru enn í gangi en ég bind vonir við að þær gangi eftir.

Þá verða skólagjöld afnumin í Háskólanum á Bifröst og Listaháskólanum frá og með næsta hausti. Slík aðgerð eykur jöfn tækifæri nemenda til náms og hefur þegar leitt til þess að mun fleiri eru að sækja í háskóla fyrir næsta haust. Að sama skapi verður stutt áfram við húsnæðisuppbyggingu háskólanna, ekki aðeins til að skólarnir geti tekið við fleiri nemendum heldur jafnframt til að bæta námsaðstöðu og efla gæði kennslunnar. Fyrirhugað er að reisa nýtt húsnæði heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands við Landspítalann auk þess sem Listaháskólinn fær nýtt húsnæði. Byggja þarf færni- og hermisetur við Háskólann á Akureyri til að efla nám í hjúkrunarfræði og fjölga nemendum og þá rís nýtt rannsóknar- og nýsköpunarhús við Háskólann í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að bygging jarðræktarmiðstöðvar hefjist á Hvanneyri og síðan á að reisa húsnæði fyrir nám og rannsóknir í lagareldi á Sauðárkróki á vegum Háskólans á Hólum og ráðast í endurskipulagningu á húsnæðismálum Háskólans á Hólum í Hjaltadal til að búa betur um námsbraut í hestafræði og um ferðamáladeild.

Frú forseti. Hér hefur verið snert á helstu áherslum mínum í nýrri fjármálaáætlun. Þar er ekki aðeins að finna markvissan stuðning við nýsköpun og menntun heldur einnig stórar kerfisbreytingar eins og fjármögnunarlíkan og sameiningu háskóla og sjóða. Slíkt mun ekki einungis styrkja þá heldur gerir það þeim líka kleift að takast á við fjölbreyttari áskoranir og eykur samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma. Við erum að leggja grunn að sterkara þekkingarsamfélagi á Íslandi, aukinni verðmætasköpun, samkeppnishæfni og stöðugra efnahagslífi til frambúðar. Það er lykillinn að fleiri tækifærum og enn meiri lífsgæðum.