154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:12]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Fyrst kannski varðandi bilanir í sendum að þá er Fjarskiptastofa að bregðast við slíku. Það er á ábyrgð Fjarskiptastofu að taka á móti slíkum ábendingum, greina og bregðast við eftir atvikum og mjög mikilvægt að það sé skýrt.

Síðan tek ég undir með hv. þingmanni um mikilvægi ljósleiðaravæðingarinnar. Hún hefur gengið ótrúlega vel. Það hefur mikið gerst á undanförnum árum og við sjáum að áform markaðsfyrirtækjanna eru stór, þau eru stórhuga gagnvart því að klára verkefnin. Núna fer fram markaðskönnun Fjarskiptastofu og því hinkrum við aðeins í sambandi við það hvernig við stígum síðan inn í og með hvaða hætti eftir því sem við sjáum hvar uppbygging er að verða að veruleika. En fjarskiptasjóður fjármagnar markaðsbresti á grundvelli slíkrar könnunar og hann er fjármagnaður fyrir árið 2025 í áætluninni og síðan er 200 milljónum óráðstafað frá því í ár og frá síðustu árum sem við getum þá tekið með þegar við erum búin að gera okkur meira grein fyrir því hvar er markaðsbrestur og hvar ríkið á að stíga inn í. Það á ekki, svo ég ítreki það, að taka langan tíma að laga bilanir. Gloppurnar á þjóðveginum eiga að vera vel þekktar en við höfum auðvitað líka stigið mikilvæg skref gagnvart farsímasambandi á þjóðveginum með samstarfi aðila um að ráðast í þær gloppur sem þekktar eru og ná árangri í því og við erum með háleit markmið um að ná auknum árangri á því sviði.