154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:10]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í máli mínu áðan þá var niðurstaðan sú í stefnuyfirlýsingu þessara ríkisstjórnarflokka að við ætluðum að styðja við fjölskyldur og auka hlutdeild þeirra sem gætu tekið þátt í íþrótta- og tómstundastarfi. Niðurstaðan úr þeirri vinnu varð sú, eftir samtöl við íþróttahreyfinguna, að fara í þetta nýja svæðaskipulag og eiga fulltrúar að aðstoða við það að virkja fleiri til íþrótta- og tómstundastarfs, vegna þess að staðreyndin er að við náum því ekki að fá börn einu sinni til að íhuga það. Það er ekki alltaf fjárhagslegs eðlis. Framsóknarflokkurinn lagði af stað með ákveðinn vaxtarstyrk en eins og hv. þingmaður veit að þegar þú ferð síðan í ríkisstjórnarsamstarf eru það útfærslurnar, samtalið við hagaðila o.fl. sem hefur áhrif á það hver eiginlega lendingin er. Við ætlum okkur að efla og auka stuðning við þessa hópa barna í íþrótta- og tómstundastarfi, við erum að gera það og munum gera það og ætlum einnig að mæla árangurinn af því.