154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:20]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Kerfum eins og menntakerfinu þarf að bylta, en það gerist í skrefum. Kveikjum neistann er eitt af þeim fjölmörgu verkefnum allt í kringum landið á ólíkum sviðum sem eru að skila árangri. En það er svo margt í Kveikjum neistann sem er öðruvísi, sem er verið að prófa. Eitt er aukin hreyfing nemenda. Annað er að spila á ástríðu nemenda og vinna með ástríðu og áhugahvöt nemenda með sérstökum ástríðutímum. Hið þriðja er alveg ótrúlegur árangur í samfélagi eins og Vestmannaeyjum í að byggja upp áhuga, umræðu og vilja allra í samfélaginu til að standa að skólanum og ná gríðarlegum árangri í samstarfi heimilis og skóla. Til að að ná svona árangri í að skala þetta upp þá þarftu að fylgja því ótrúlega fast á eftir. Í dag er öllum frjálst að taka upp Kveikjum neistann eða önnur þau verkefni sem eru í gangi. Það er ótrúlegt frelsi í menntakerfinu okkar. Ef hið opinbera ætti að taka ákvörðun um að skala verkefni eins og Kveikjum neistann upp þá þarf einhver að vera til staðar sem getur aðstoðað og þjónustað það. Ný Miðstöð menntunar og skólaþjónustu getur gert það. Hennar hlutverk á að vera að þjónusta sveitarfélög í því að taka upp það sem vel gengur annars staðar. Hennar hlutverk og afl þarf að vera það, en síðan þarf það að vera vilji skólasamfélagsins að gera það og fylgja því eftir. Ég held að það séu sveitarfélög sem eru tilbúin að stíga þessi skref. Ný stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, tók formlega til starfa fyrir ekki mánuði síðan. Hennar hlutverk á að vera að skala þetta upp. Þannig að já, ég mun standa við bakið á Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Eitt af því sem ég ræddi í minni ræðu er að fylgja svona verkefnum eftir og aðstoða fleiri við það. (Forseti hringir.) Ég held þó að það eigi ekki að vera ráðherrann sjálfur sem fari um landið og kenni fólki hvernig það á að innleiða eitthvað sem er gert í einu sveitarfélagi en ekki öðru. (Forseti hringir.) En með stofnanaumgjörðinni og eftirfylgninni þá getum við gert það. Þannig að já, ég styð það, og svarið er að við getum það. En það er stofnunin sem á að gera það en ekki ráðherrann.