154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:40]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að það sé óhætt að segja, svo ég bæti við, að námsgögn eru algjört lykilatriði þegar kemur að þróun menntastarfs og gæðamenntunar. Það eru verkfærin sem notuð eru dag frá degi og þar hefur verið þörf á tvennu; annars vegar að stokka aðeins upp umgjörðina í kringum námsgagnaútgáfuna, þ.e. þessa lagalegu umgjörð sem hefur verið í kringum námsgagnaútgáfu núna, hvernig við förum kannski blandaðri leið að því að nýta hið opinbera, en líka gróskuna sem er á almenna markaðnum, auknar þýðingar, aukin tækni, námstækni og fleira. Hins vegar hefur það verið svo að við höfum ekki verið að setja fjármagn til þessara mála.

Skilaboð mín varðandi námsgögn eru að við erum að undirbúa nýtt frumvarp sem er verið að kynna í opnu samráði núna um breytta umgjörð námsgagnaútgáfu sem er hluti af endurskipulagningu og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Ég reikna með því að koma með það frumvarp í haust, ég ætlaði að ná því inn núna fyrir vorið en það þarfnaðist aðeins meira samráðs þannig að það verður eitt af mínum fyrstu málum á haustdögum. Fjármálaáætlun er auðvitað svolítið úr 20.000 fetum, við erum ekki að ræða fjárlög. Samhliða þessu munum við þurfa að setja aukið fjármagn á tímabili áætlunarinnar til námsgagnagerðar. Það munum við skapa bæði innan úr framhaldsskólakerfinu með nýju svigrúmi sem þar er inn í fjármagnið til inngildingar og líka á málefnasviðinu sem lýtur að grunnskólamálum í áætluninni. Þannig að þú sérð það ekki á einhverjum einum stað en það verður aukning og þar erum við í fyrsta fasa að fara að leggja sérstaka áherslu á námsgögn fyrir nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.