154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:43]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Já, aðeins varðandi fyrri punktinn. Það er gert ráð fyrir því að aukið fjármagn geti farið í námsgagnaútgáfu á tímabili áætlunarinnar. En ég ætla að vera algerlega heiðarlegur í því að miðað við hvað við höfum vanrækt fjárfestingu í þessu á síðustu allmörgum árum og fleiri tímabilum heldur en þessarar ríkisstjórnar þá held ég að við þyrftum að setja miklu meira í þetta á næstu árum en við erum að gera ef við ætluðum að vinna það allt upp á tímabili áætlunarinnar. Við munum sannarlega auka námsgagnaútgáfuna mikið en við munum ekki vinna upp þessa miklu innviðaskuld sem hefur verið vegna undirfjárfestingar síðustu 10, 15, 20 ára. Þar munum við þurfa aðeins lengri tíma. Stór hópur helstu hagaðila hefur verið starfandi og komið að þessari frumvarpssmíði. Það var haldin góð vinnuráðstefna fyrir ekki svo löngu síðan og ég held að þar sé að nást alveg ótrúlega góð samstaða um að fara blandaða leið í því að slaka aðeins á námsgagnaútgáfukerfinu; (Forseti hringir.) að fara blandaða leið þar sem hið opinbera mun sjá um ákveðna hluti, samhæfingu, ákveðna hluti í námsgagnaútgáfu, (Forseti hringir.) en einnig að opna almenna markaðinn svolítið fyrir þessu og þýðingum, menntatækni o.fl.