154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:50]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Fyrst við erum að gera svona rosalega mikið eins og hæstv. ráðherra fór yfir, hvernig stendur þá á því að okkur gengur svona illa í PISA-könnunum? Hvernig stendur á því að 40% 15 ára nemenda ná ekki grunnfærni í lestri? Við erum líka að svíkja efsta stigið varðandi lesturinn, þá allra bestu. Sama gildir um stærðfræðina og náttúruvísindin.

Spurningin er þessi: Hvaða aðgerðir ætlar ráðherra að ráðast í til að beita sér fyrir því að þessi 40% nemenda sem ná ekki grunnfærninni muni geta náð henni? Það er spurningin. Hvað á að gera til þess? Þetta snýst ekki eingöngu um peninga. Þetta snýst líka um aðferðafræðina við kennsluna. Það er aðferðafræði sem er hægt að skrifa niður í aðalnámskrá. Það er það sem skiptir máli. Ég veit að Ísland er lítið samfélag þar sem allir þekkja alla og sérhagsmunir stjórna þessu landi, en það verður að stíga niður af því að ráðherrann ber ábyrgð á þessum málum samkvæmt forsetaúrskurði og samkvæmt stjórnkerfinu. Það erum við sem berum endanlega ábyrgð á þessu hér á Alþingi í þingræðisríki. Það er Alþingi sem gerir það og þú situr í skjóli okkar. Hvaða aðgerðaáætlun ætlar þú að koma með varðandi lestur, bara varðandi lestur í grunnskóla? Ég veit að það eru rosalega margar stefnur hingað og þangað og allir að gera eitthvað tvist og bast, en árangurinn er enginn. Það er enginn árangur að koma í ljós. (Forseti hringir.) 40% 15 ára nemenda ná ekki grunnfærni í lestri. (Forseti hringir.) Það er hinn kaldi raunveruleiki og það er það sem við þurfum að horfa á. Horfa þarf á aðferðafræðina, þetta snýst ekki bara um peninga. (Forseti hringir.) Við verðum að nota stjórntækin og réttar aðferðir til að við náum árangri í næstu PISA-könnun.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir hv. þingmann á að beina orðum sínum til forseta.)