154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:11]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferðina hér um hans víðfeðma málaflokk. Það væri hægt að vera hér í allan dag að ræða þessi mál við hann. En mig langar, þar sem við erum með fjármálaáætlun og gott tækifæri til að horfa svolítið vítt yfir sviðið, að taka upp við hann málaflokk sem tengist líka mörgum öðrum ráðuneytum, og það er álag á innviði og ekki síst heilbrigðisinnviði. Ég vil líka ræða það hvernig ákvarðanir í öðrum málaflokkum hafa áhrif á álagið í málaflokki hæstv. heilbrigðisráðherra.

Víða um land hafa svæði breyst; fámenn svæði, ekki margir íbúar, hafa breyst í svokölluð vaxtarsvæði þar sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur komið á svæðið en öryggisinnviðir hafa ekki þróast með. Ég var á ráðstefnu á Hornafirði fyrir ekki löngu. Þar komu saman 60 aðilar til að ræða málin, um er að ræða svæðið alveg frá Vík í Mýrdal og austur á Höfn, þar sem ferðamannastraumurinn hefur aukist hvað mest. Þar eru á hverju hóteli gestir á hverri einustu nóttu allan ársins hring sem eru fleiri en íbúar í heilu bæjarfélögunum. Þetta eru ferðamenn sem eru virkir og þarna þarf gríðarlega þjónustu, utanspítalaþjónustu. Þarna eru fáir læknar, langt í sjúkrabíla, langt í næstu aðstoð og allt þetta.

Mig langar því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé að vinna með öðrum ráðuneytum í því að takast á við þessa utanspítalaþjónustu og þjónustu í öryggisinnviðum á þessum svæðum.