154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir spurningarnar. Þær voru í kjarna sínum tvær, þ.e. um samninga við sjúkraþjálfara og svo stöðuna á bráðamóttökunni. Það er rétt að ítreka þegar í upphafi að við endurgreiðum enn fyrir þjónustu sjúkraþjálfara; staðan er svipuð og var uppi með sérgreinalæknasamningana. Og já, við metum þátt sjúkraþjálfara mjög mikilvægan í allri endurhæfingu. Við þekkjum að ágætisárangur hefur náðst þegar kemur að því að vinna í stoðkerfismálum. Við höfum á þessum tíma samþykkt breytingar á reglugerð þannig að fyrstu sex skiptin er hægt að fara beint til sjúkraþjálfara án þess að fá tilvísun frá heimilislækni og það hefur sparað þúsundir samskipta.

Það er góður gangur í þessu. Ég legg mikla áherslu á að það semjist við sjúkraþjálfara og á sömu forsendum og við sérgreinalækna. Í samningsleysinu eru aukareikningar, aukaþjónusta, og þá gliðnar á milli. Þegar við erum að tala um 10% verðbólguumhverfi og kjarasamninga gliðnar á milli endurgreiðslu, verðskrár og rekstrar og þá fer aukareikningurinn á þjónustuþega. Við viljum veita jafnt aðgengi óháð efnahag og út frá þeirri stefnu legg ég mikla áherslu á að semja. Ég vil líka taka næsta skref þannig að næstu skipti verði það bara mat sérfræðingsins, sjúkraþjálfarans, hvort lengra þurfi að halda, hvort viðkomandi þurfi fleiri en sex skipti. Þá þyrfti ekki tilvísun heimilislæknis í framhaldinu. Þetta tengist auðvitað líka því hagræði sem við höfum verið að ræða varðandi (Forseti hringir.) aðkomu heimilislækna í gegnum tilvísanakerfið. Ég skal svo koma inn á bráðamóttökuna í síðara andsvari.