154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir hvað varðar umræðu um það sem snýr að nauðung. Í frumvarpinu, sem ég mun leggja fyrir þingið, er meginmarkmiðið að lögfesta bann við nauðung og horfa svo til undanþága út frá skilgreiningum — það er ekki tæmandi listi en þó eru það einhver 12 atriði sem ná utan um það hvaða kringumstæður geta komið upp þegar um nauðung er að ræða — og þá fyrst og fremst út frá einstaklingnum og ákvörðunarrétti hans og mannréttindum.

Við höfum rætt um umboðsmann sjúklinga og þingmannafrumvarp liggur fyrir hv. velferðarnefnd. Við höfum síðan sett á fót geðráð sem er mjög mikilvægt og tekur til umfjöllunar öll mál sem snúa að geðheilbrigðismálum og vímuvarnarmálum og er til ráðgjafar. Við erum líka í millitíðinni búin að setja á fót notendaráð. En það verður bara að sjá til með það hvað myndi þá felast í því frumvarpi og niðurstöðu velferðarnefndar, hvernig það yrði þá fjármagnað.