154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni fyrir innleggið í þessa umræðu og fyrir að taka þetta málefni upp. Eins og hv. þingmaður fór yfir er þetta ein mesta lýðheilsuógn í heiminum og birtist okkur líka hér á Íslandi. Það er mjög stórt lýðheilsumál að sinna þeim sem eru fíknisjúkir. Við höfum, eins og hv. þingmaður dró reyndar mjög vel fram, byggt upp þetta kerfi okkar, bæði á grunni félagasamtaka, sjálfseignarstofnana, og samhliða í opinbera kerfinu.

Hv. þingmaður fór hér yfir fjárhæðir sem eru samt örlítið hærri en hann tilgreindi, ég ætla kannski ekki að tína þær nákvæmlega til, ég er ekki með þær fyrir framan mig. En það má kannski bæta opinberu þjónustunni við. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir tölurnar hér sem ná utan um það sem við borgum í gegnum Sjúkratryggingar til SÁÁ með sérstökum samningi sem er vistaður í félagsmálaráðuneytinu, og er líka við Krýsuvík — við hyggjumst taka þetta inn í heilbrigðisráðuneytið og hafa þetta allt á sama stað — og Hlaðgerðarkot ásamt öðrum úrræðum.

Við erum með í gangi einhverja mestu stefnumótunarvinnu, og reynum að vinna mjög hratt, sem farið hefur verið í. Um er að ræða hvort tveggja í senn vímuefnastefnu, uppfærslu á henni í heildina með þátttöku fjölmargra aðila, rýnihóp þingmanna og sérstakan skaðaminnkunarhóp sem snýr m.a. að vaxandi vanda og misnotkun lyfja, ópíóíðatengdra lyfja, sem er mál sem er erfitt viðureignar. Við erum því að leggja aukna vinnu í þennan málaflokk. Við erum líka með þetta til umfjöllunar í geðráði. Það er mjög umfangsmikil vinna í gangi en við munum þurfa að setja aukið fé í þetta.