154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp varðandi fíknisjúkdóma og viðbrögð við þeim, hvernig við stöndum að því að veita þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Varðandi kjarnaðan texta inn í greinargerðir með málefnasviðum þá er það mjög athyglisvert og ég mun taka það inn í myndina. Þetta dregur kannski fram hversu flókinn sjúkdómurinn er. Þegar ég hugleiði þetta — af því að við erum með mjög öflugan hóp sem er að vinna að skaðaminnkunarstefnu, þeirri fyrstu sem við höfum sett fram, sem ég tel mjög mikilvæga sem hluta af vímuefnastefnu sem er líka farin í gang — þá snertir sjúkdómurinn öll þessi fimm málefnasvið. Við erum að tala um málefnasvið 23, sjúkrahúsþjónustu, málefnasvið 24 og 25, utansjúkrahúsþjónustu og hjúkrunarheimili, og samninga Sjúkratrygginga. Við erum að tala um lyf og lækningatæki, málefnasvið 26. Og við erum að tala um málefnasvið 32, sem er lýðheilsan og stjórnsýslan þar sem landlæknir er með eftirlit með þessu. Þetta dregur kannski fram að við eigum ekki þennan kjarnaða texta um þessa skaðaminnkunarnálgun sem ég bind miklar vonir við. Ég er með langan lista sem ég gæti farið yfir, frú forseti, og vonandi tekur einhver þetta mál upp í sérstakri umræðu, þetta er það stórt mál. En ég bind miklar vonir við skaðaminnkunarstefnuna. Það eru líka fjölmörg verkefni sem við höfum lagt upp með, eins og niðurtröppunarverkefni, aðgengi að nalaxón og skaðaminnkunarverkefni sem eru þegar komin í gang.