154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:31]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina hér í dag. Snemma á þessu ári boðaði hæstv. dómsmálaráðherra umfangsmikil áform um lagasetningu sem hún hyggst nota að öðru óbreyttu til þess sem er kallað lokað búsetuúrræði, hugtak sem hefur hingað til verið notað um heimili fólks sem á rétt á velferðarþjónustu, oft vegna öldrunar og fötlunar, en ekki yfir varðhaldsbúðir sem frumvarpsdrög bera merki um að verði samastaður þeirra sem nýta sér þau grundvallarmannréttindi að sækja hér um alþjóðlega vernd. Hér er gert ráð fyrir að heildarkostnaður gæti hlaupið á bilinu 420–600 millj. kr. fyrir það eitt að útbúa aðstöðuna og þá er reksturinn eftir.

Frú forseti. Ég má til með að nýta tækifærið og spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Er gert ráð fyrir byggingu þessarar varðhaldsmiðstöðvar á yfirstandandi kjörtímabili? Hvernig birtist sú fjármögnun í fjármálaáætlun? Ég vek athygli á að gert er ráð fyrir að framlög til almanna- og réttaröryggismála dragist saman um 2,6 milljarða kr. milli áranna 2024–2029. Samt eru biðlistar í fangelsum landsins. Það liggur líka fyrir að ekki færri en fjórir dómar vegna kynferðisbrota hafa fyrnst á liðnum áratug, ofbeldisbrotin 31. Hér á vissulega að byggja nýtt fangelsi við Litla-Hraun fyrir karlfanga en enn eru a.m.k. fimm ár í að það geti tekið til starfa.

Að því sögðu bið ég hæstv. ráðherra aftur að svara hvað ríkisstjórnin ætli að gera núna til að bregðast við upplausn í fangelsismálum á landinu uns nýtt fangelsi opnar við Litla-Hraun. Og er gert ráð fyrir fjármögnun varðhaldsbúða, sem hæstv. ráðherra kallar lokuð búsetuúrræði, í fjármálaáætlun? Ég þarf skýr svör við þessu, já eða nei.