154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:43]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Það skiptir mjög miklu máli að aðstæður í fangelsum landsins séu góðar því að hér á landi viljum við að fangelsin séu staðir þar sem fólk afplánar refsingu sína en vinni á sama tíma í sjálfu sér og komi út sem betri einstaklingar. Til að sjá til þess að það sé möguleiki er mjög mikilvægt að aðstæður fanga og fangavarða séu góðar og öruggar og því vil ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir þá vinnu sem er farin af stað vegna Litla-Hrauns. Það er mjög mikilvægt að halda áfram með uppbyggingu í öðrum fangelsum og því vil ég þakka fyrir þau svör sem komu hér er varða endurskoðun á fullnustukerfinu og þau svör sem komu varðandi Kvíabryggju. Á sama tíma ítreka ég mikilvægi þess að bæta aðstöðuna á Kvíabryggju svo að hægt sé að halda áfram því góða starfi sem þar er unnið við mjög erfiðar aðstæður.