154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að beina til mín spurningu um Kvíabryggju og ástandið sem þar er. Ég vil ítreka að ég er meðvituð um að húsakostur á Kvíabryggju þarfnast lagfæringar, þarfnast endurbóta. Það starf sem þar hefur verið í langan tíma hefur verið gott og það er ánægja með það. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málefnum fanga því að það er málaflokkur sem ég tel að hafi kannski orðið örlítið út undan. Það skiptir mjög miklu máli að aðstæður í fangelsum á Íslandi séu sambærilegar við það sem gerist í löndunum í kringum okkur, að við tryggjum öryggi fanga og ekki síður öryggi fólks sem þar starfar.