154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að það er löngu tímabært að við styrkjum almannavarnir enda, eins og kom fram í máli mínu hér fyrr, hefur mikið mætt á þeim einstaklingum sem þar starfa. Ég segi stundum að við Íslendingar séum afskaplega góð í viðbragði en við erum kannski ekki eins góð í forvörnum. Þegar svona mikið gengur á hafa starfsmenn almannavarna varla tök á að sinna forvörnum sem þarf að gera víðs vegar um landið af því að við erum í svo miklu viðbragði. Þessi styrking í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er liður í því að við getum horft til allra hluta landsins og tryggt þar til framtíðar gott viðbragð ef hætta steðjar að íbúum eða mikilvægum innviðum.

Það er búið að setja mikið í lögregluna á síðustu árum, frá 2017 þegar þessir þrír flokkar mynduðu hér ríkisstjórn. Ég held að ekki hafi verið vanþörf á og ég fagna því að það hafi verið gert. Enda sér maður þess merki. Við höfum t.d. sett aukið fé í skipulagða glæpastarfsemi og við höfum séð árangur af þeirri vinnu í margvíslegum verkefnum lögreglunnar þannig að það er að skila sér. Sömuleiðis má geta þess að með þessu aukna framlagi var ákveðið að lögreglan myndi taka upp verkbókhald. Það skiptir líka máli því að með því getum við séð hvar mesta þörfin er þannig að við getum deilt því fjármagni sem er til skiptanna fyrir lögregluna þar sem þörfin er mest.