154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra er þá hér að staðfesta að frá og með árinu 2026 verður sett 1% aðhaldskrafa á löggæsluna í landinu öllu. Ég minni hana á, af því að ég heyri hana lýsa áhyggjum af stöðunni og skilningi á þýðingu starfsins, að hjá stofnunum þar sem 90% af rekstrarfé fara í laun mun þetta hafa áhrif. Þar verður líka að horfa til þess hver staðan í löggæslunni í landinu er í dag.

Þegar hæstv. dómsmálaráðherra talar um það sem pólitískt áhugamál sitt að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi er það einfaldlega þannig að ekki er hægt að byggja ofan á hús sem stendur veikt fyrir. Hin almenna löggæsla er grunnurinn í þessu öllu og það er tómt mál að ætla sér að ná árangri gegn skipulagðri glæpastarfsemi ef það á að vanrækja löggæsluna í landinu með þeim hætti sem þarna getur gerst. Löggæslan stendur veikt, hefur staðið veikt til margra ára. 1% aðhaldskrafa ofan á það ástand (Forseti hringir.) getur aldrei verið svarið við þeirri stöðu sem dómsmálaráðherra er hér að lýsa um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi, aldrei.