154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Mér finnst alltaf svolítið sérkennilegt að heyra hv. þingmann tala um litla útlendingafrumvarpið, sem er það frumvarp sem ég hef mælt fyrir og er nú í meðförum nefndar hér á Alþingi. Þar inni eru t.d. breytingar sem reynt hefur verið að fella úr útlendingalögunum í mörg ár; sú breyting er þar inni. Þá á ég við að fella niður 2. mgr. 36. gr. sem á við sérstakar ástæður og sérstök tengsl. Þetta er séríslensk málsmeðferðarregla sem finnst ekki í löndunum í kringum okkur og það stendur til að fella hana út og hefur oft verið rætt um það. Sömuleiðis er í lögunum að gera breytingar á skilyrðum til fjölskyldusameiningar og dvalartíma er sömuleiðis breytt. Hér er því um umtalsverðar breytingar að ræða og það veit hv. þingmaður og þarf ekki að vera að gera lítið úr þessu frumvarpi.

Ég vil sömuleiðis minna hv. þingmann á að sú breyting sem gerð var á útlendingalögunum á síðasta ári hefur nú þegar haft áhrif, hefur haft þau áhrif að það sem af er þessu ári, samanborið við sömu mánuði ársins í fyrra, erum við að sjá hér 60% færri umsóknir á Íslandi í ár en á sama tíma í fyrra. Það er aftur á móti rétt, sem hv. þingmaður segir, að við erum enn að sjá of margar umsóknir miðað við það sem innviðir okkar geta að mínu mati borið.

Hvað hyggst ríkisstjórnin gera? spyr hv. þingmaður. Við ætlum að fækka umsóknum, við ætlum að hraða málsmeðferðartímanum og við ætlum einnig að setja aukinn kraft í brottflutning þeirra sem fá synjun hér á landi og ber að yfirgefa landið.