154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég rak augun í það, í sambandi við dómsmálaráðherra í fjármálaáætluninni, að þar er ekki eitt einasta orð, það er ekki nefnt á nafn, um það hvort það sé á stefnuskrá hæstv. dómsmálaráðherra næstu fjögur árin að banna spilakassa. Við erum með dæmi núna þar sem verið var að ræna nokkrum tugum milljóna króna í Kópavoginum, í Hamraborginni. Ég veit ekki hvort það var viku- eða bara helgarinnkoma hjá Happdrætti Háskólans. Það segir okkur að það eru gífurlegir fjármunir þarna undir. Þarna eru veikir einstaklingar, spilafíklar, og heilu fjölskyldurnar líða fyrir þetta, missa ofan af sér húsnæði og allt saman. En það sem mér finnst auðvitað alvarlegast í þessu eru hinir fársjúku spilafíklarnir, sem eru Háskólinn, Rauði krossinn og Landsbjörg, sem eru fjárhagslega háð því að spilafíklar haldi áfram að moka milljónum í þessa hít. Á þessum stað, sem hlýtur að vera undir dómsmálaráðherra kominn, skilst mér að það séu 100 spilakassar en það mega vera 49 manns inni. Ég efast um að hver einstaklingur sem kemur þarna inn sé að spila á tveimur kössum í einu. Hvernig stendur á því að þarna er leyft að hafa helmingi fleiri kassa en fólk inni í húsinu? Ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi einhverja sýn á það. Af krónunum fara 40% í kostnað, af þessum 4 milljörðum sem eru í kringum þetta. Það eru 1,6 milljarðar sem er rekstrarkostnaður. Ég spyr mig: Er ekki hægt að fjármagna þetta? Er ekkert inni í plani næstu fjögurra ára að sjá til þess að fjármagna þetta á fjárlögum. Við erum með einkarekna fjölmiðla — þetta er kannski tvöfalt, þrefalt það sem við erum (Forseti hringir.) að láta í þá, svokallaða einkarekna fjölmiðla. Getum við ekki leyst þessa spilafíkla, Háskólann, Landsbjörgu og Rauða krossinn, undan sinni spilafíkn?