154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Mig langar að fá að svara því sem ég náði ekki að svara í mínu fyrra andsvari. Nei, það er ekki verið að kaupa rafvarnarvopn til lögreglunnar hér á landi í sparnaðarskyni. Það er ekki verið að spara hvað þetta varðar. Ég vil fá að ítreka það sem ég sagði áðan að það er mjög mikilvægt að lögreglunni okkar séu tryggð tæki og tækni til að bregðast við breyttum veruleika þannig að hún geti farið inn í þær aðstæður sem eru víða í samfélaginu, að lögreglumönnum líði þannig að þeir séu öruggir í sínu starfi. Ef við gerum það ekki, ef við tryggjum ekki framúrskarandi umgjörð til lögreglumanna, þá munum við ekki fá neina lögreglumenn til að sinna þessu starfi. Það er t.d. nú þegar orðið vandamál í Svíþjóð að ungt fólk lítur ekki á lögreglustarfið til framtíðar. Ástandið hefur verið með þeim hætti hvað varðar glæpagengi í Svíþjóð. Mig langar bara að segja að lokum: Ef þú ert slökkviliðsmaður þá ferðu ekki inn í brennandi hús án slökkvitækis.