154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég ætla ekki að vera með kennslustund fyrir hv. þingmann í kynjafræðum og bið hann vinsamlegast um að kynna sér það sjálfur. En hann spyr mig hér ítrekað út í útlendingamálin. Ég er fegin að heyra að hv. þingmaður er hættur að tala hér um litla útlendingafrumvarpið því að það er svo sannarlega umfangsmikið og mun skipta máli. Hér sammæltust ríkisstjórnarflokkarnir um heildstæða stefnu í útlendingamálum. Þar voru tíu aðgerðir settar fram. Fyrsta aðgerð var að gera breytingar á núgildandi útlendingalögum. Ég hef nú þegar mælt fyrir því frumvarpi, það er í meðförum nefndar og ég geri ráð fyrir að það verði afgreitt á þessu þingi. Ég sé enga ástæðu til að ætla eitthvað annað. Í þessari heildarsýn í útlendingamálum var sömuleiðis kveðið á um að nauðsynlegt væri að koma upp búsetuúrræði með takmörkunum fyrir þá einstaklinga sem fá synjun um dvöl í landinu og ber að yfirgefa landið. Ég var búin að vera með frumvarp í samráðsgátt. Núna er samráðshópur í gangi sem er með það verkefni að fara yfir móttöku fólks og málsmeðferð, og svo brottvísun þegar fólk á að yfirgefa landið. Ég hyggst kynna það frumvarp og leggja það fyrir þingið í haust. Sömuleiðis er verið að vinna að stefnu í landamæramálum sem ég hyggst kynna, væntanlega í byrjun júní, um aðgerðir á landamærum.