154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:10]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir kynninguna á sínum málaflokki í fjármálaáætlun. Í fjármálaáætlun stendur, með leyfi forseta:

„Aukin útgjöld til varnarmála og þróunarsamvinnu eru talin geta stuðlað að jafnrétti. Að tryggja frið er jafnréttismál enda eru öryggi og friður grunnurinn fyrir jafnrétti kynjanna. Vopnuð átök hafa ólík áhrif á konur og karla, bæði hvað varðar átökin sjálf og ofbeldið þeim tengt en einnig þegar kemur að aðgengi að menntun, heilsugæslu og fæðu.“

Þetta er að vissu leyti byggt á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Ísland hefur gert þrjár landsáætlanir sem eru byggðar á þeirri ályktun og er verið að vinna að þeirri fjórðu. Ég vil hrósa ráðuneytinu fyrir þá mikilvægu vinnu og þá fjármuni sem hefur verið veitt í þá vinnu.

En öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur einnig ályktað nokkrum sinnum um ungt fólk, frið og öryggi og eru þessar tvær ályktanir keimlíkar. Eftir því sem ég best veit hefur ekki verið farið í neina vinnu byggða á seinni ályktuninni hér á landi. Fjöldi ungmenna er nú um 1,8 milljarðar talsins og hefur aldrei verið meiri. Samkvæmt skilgreiningu öryggisráðsins er ungmenni einstaklingur á aldrinum 18–29 ára. Þriðjungur þeirra er talinn í viðkvæmri stöðu en ungmenni eru almennt stór hluti þess fólks sem verður fyrir slæmum áhrifum vegna vopnaðra átaka. Það er mjög oft litið fram hjá lykilhlutverki ungmenna í að viðhalda friði.

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra: Er vinna í gangi innan utanríkisráðuneytisins eða áform um að skoða sérstaklega stöðu ungs fólks í átökum og hlutverk þeirra í að koma á friði?