154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:13]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Vopnuð átök takmarka aðgengi ungs fólks að menntun og atvinnu. Það er ljóst að það er mikilvægt að ungt fólk komi að ákvarðanatöku og þeirri vinnu að móta varanlegan frið, stuðla að réttlæti og sáttum og móta framtíðina. Innan Sameinuðu þjóðanna eru einnig miklar áhyggjur af þátttöku ungs fólks í hryðjuverkum og átökum um allan heim, bæði stafrænum og vopnuðum átökum. Það er ástæðan fyrir því að öryggisráðið lagði sérstaka áherslu á ungt fólk í ályktun sinni og því hvet ég hæstv. ráðherra til að vinna í þessum málum og vinna að landsáætlun í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um ungt fólk, frið og öryggi, rétt eins og hefur verið gert í málefnum kvenna.