154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa áherslu og líka fyrir spurningarnar. Ég segi ekki annað en það að ég er meira en tilbúin til að leggja mitt af mörkum í þessu. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir um mikilvægi þess að fókusa á ungmenni. Þegar við horfum til að mynda á viðkvæmustu svæði í Afríku, og þá hópa sem þar fara fram með glæpum og ofbeldi og illsku, þá er mjög sárt að sjá meðalaldur í þeim hópum. Það er vegna þess að þau upplifa — þeir, þetta eru auðvitað mikið til ungir menn — að það sé ekkert annað en þetta. Ef hægt er, sem er hægt, að brjóta þetta upp með einhverjum hætti þá er það auðvitað fjárfesting til framtíðar. Þess vegna er þessi áherslupunktur mikilvægur.