154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna og óska henni til hamingju með að vera komin aftur í sitt gamla ráðuneyti, utanríkisráðuneytið. Ég vona að henni gangi vel í sínum störfum. Þegar maður skoðar fjármálaáætlunina, málefnasvið 4, kemur fram að gert er ráð fyrir að framlög til utanríkisþjónustu, stjórnsýslu utanríkismála, lækki um tæplega 670 millj. kr. á tímabilinu. Þar munar mest um hið almenna aðhald. Gert er ráð fyrir að framlög til utanríkisviðskipta standi í stað vegna hækkunar markaðsgjalds og samningsbundin framlög til alþjóðastofnana hækki um 17,2 milljónir. Varðandi þetta almenna aðhald, gætum við farið aðeins nánar út í það hvar það á að liggja? Liggur það í launakostnaði eða hvar mun það koma fram, eða fækkun starfsmanna o.s.frv.?

Mig langar líka að spyrja varðandi sendiráðin. Nú var sendiráði okkar í Moskvu lokað og við erum tiltölulega nýlega búin að stofna sendiráð í Póllandi sem er vel — og mikilvægt að við skyldum gera það vegna viðskipta okkar við Pólland og ekki síst vegna þess fjölda Pólverja sem er á Íslandi. Ég vil benda á að Spánverjar hafa opnað sendiráð á Íslandi og ég spyr hvort ekki sé mikilvægt að við gerum það sama, að við opnum sendiráð í Madrid. Og þá líka í ljósi gríðarlegs fjölda ferðamanna sem þar er frá Íslandi og líka vegna Íslendinga sem t.d. dvelja í tugþúsunda tali á Alicante-svæðinu og að sjálfsögðu einnig vegna fiskútflutnings okkar sem á áratugahefð, það er meira en 100 ára gömul hefð fyrir sölu á fiskafurðum. Ég mun koma að fleiri spurningum í seinna slotti.