154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og þakka góðar óskir. Fyrst varðandi aðhaldskröfuna almennt þá er hún talsverð og það mun reyna á. Við verðum að vera skapandi í því hvernig við náum henni fram. En þar horfum við fyrst og fremst á launakostnað, fækkun starfsfólks og síðan er gert ráð fyrir að dregið verði úr öðrum rekstrarútgjöldum. Þá er hægt að taka til ferðakostnað og að kostnaðarhlutdeild verkefna í stoðþjónustu verði endurmetin í ljósi þessara breytinga. Þetta er bara verkefni sem blasir við okkur og við þurfum að finna út úr því.

Varðandi sendiráðin — já, við lögðum niður starfsemina í Moskvu sem þýðir, af því að við lokuðum ekki, að það er undir okkur komið hvort og þá hvenær hún verði hafin að nýju. En það eru engar áætlanir um það eins og sakir standa. En sannarlega hefur það verið lengi til skoðunar að opna annaðhvort sendiráðsskrifstofu eða sendiráð í Madrid. Ef við horfum á það hvar við veljum staði til að vera með sendiráð þá er það einmitt vegna viðskiptahagsmuna, mikilla samskipta, pólitískra samskipta, menningar og síðan vegna fólks sem fer á milli. Allt þetta á við í Madrid. Það væri því skynsamlegt að gera það. Það kostar hins vegar. Við opnuðum í Varsjá með því að forgangsraða innan ráðuneytisins og það er einfaldlega ekki hægt að óbreyttu að gera það sama í Madrid. Það er auðvitað líka reglan og venjan og kurteisi að svara því sem ríki gera hér þannig að það er sannarlega á teikniborðinu. Það hefur (Forseti hringir.) ekki verið tekin ákvörðun um það en það væri skynsamlegt af okkar hálfu og rétt að gera gagnvart Spáni.