154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:20]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Varðandi sendiráð í Madrid tel ég að það sé mjög mikilvægt og ekki síst í ljósi þess mikla fjölda Íslendinga sem þar býr stóran hluta ársins. Þar er líka töluverður fjöldi aldraðra og öryrkja sem þarf á þjónustu hins opinbera hér á landi að halda. Ég get tekið sem dæmi að í fjárlögum síðasta árs, eða í bandorminum, átti að afnema persónuafsláttinn af fólkinu sem býr þar; það átti ekki að njóta persónuafsláttar. Ég get tekið sem dæmi að Norðmenn eru með útibú frá NAF, sinni tryggingastofnun, á Spáni, nokkur útibú ef ég man rétt. Það er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir þá sem þar búa, að þeir geti leitað eftir þjónustu til sendiráðs og jafnvel ræðismanns á þeim svæðum þar sem þeir búa.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi það að gæta hagsmuna Íslands í hvívetna, eins og segir að sé hlutverk utanríkisþjónustunnar. Varðandi það að vera að fækka starfsfólki — kemur þetta ekki niður á hagsmunagæslunni? Þarf ekki að sjá til þess að það sé öflug hagsmunagæsla í helstu viðskiptalöndum okkar og þá tala ég nú ekki um í Brussel? Gæti hæstv. ráðherra farið aðeins yfir það?