154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Ég ætla að byrja á því að bjóða hæstv. utanríkisráðherra velkominn aftur heim í sitt ráðuneyti. Nú er það þannig, sem er mjög ánægjulegt að sjá, að á tímabili þessarar fjármálaáætlunar er ætlunin að hækka framlög Íslands til þróunarsamvinnu úr 0,35% upp í 0,42%. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa hækkun nú þegar aðhaldskrafa er í ríkisfjármálum almennt. Við höfum ekki séð þessi framlög hækka það mikið á undanförnum áratug, höfum verið þarna á milli 0,30–0,35%.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað fékk hana til að berjast fyrir þessari hækkun? Það kemur kannski sumum Sjálfstæðismönnum á óvart, en hingað til hefur kannski ekki verið mikið rætt um mikilvægi þessa framlags þar sem það er ekki að gera hluti hér á landi heldur erlendis. Af hverju barðist hæstv. ráðherra fyrir þessari hækkun?