154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Aðkoma og þátttaka frjálsra félagasamtaka í þróunarsamvinnu er einfaldlega algjört lykilatriði. Það sem við höfum gert undanfarin ár er að ramma betur inn það samstarf, bæði með skilgreindum markmiðum en líka í langtímasamningum sem er lykilatriði fyrir þau til þess að geta verið örugg um ákveðinn fyrirsjáanleika í verkefnum, skuldbindingum, starfsmannahaldi o.s.frv. Við erum auðvitað með færri félagasamtök en víðast hvar í nágrannalöndunum, sem er ein skýring.

Ég hef áður í störfum mínum, og heiti því að gera það áfram, lagt áherslu á að leita til slíkra félagasamtaka, bæði í samstarfi en líka í vinnu og með því að undirbyggja ákvarðanir. Það skiptir máli vegna þess að þarna er auðvitað að finna mikla þekkingu, reynslu og ástríðu fyrir málaflokknum. Og það er nú bara þannig að þegar maður (Forseti hringir.) hefur það þá kemur það manni mjög langt.