154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna þar sem víða þarf að koma við. Hæstv. ráðherra leggur m.a. áherslu á frið og öryggi og það finnst mér mikilvægt og er meðal þess sem mig langar að ræða hér. Fyrst vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti ekki verið sammála mér um að Ísland hafi mikilvæga rödd og að okkur hafi farnast hvað best í okkar utanríkispólitík þegar við styðjum við alþjóðastofnanir sem stuðla að friði og tökum þátt í borgaralegum verkefnum.

Mig langar bara að nefna þátttöku okkar í mannréttindaráðinu og afleiðingar af því. Ég hefði viljað sjá meiri og dýpri umfjöllun um þetta atriði í fjármálaáætlun. Þar kemur einnig fram og segir að alþjóðlegar skuldbindingar á sviði afvopnunarmála og vígbúnaðartakmarkana eigi undir högg að sækja og mikilvægt sé að sporna við þeirri þróun og lögð sé rík áhersla á að varðveita og styrkja samninga á þessu sviði. Því að afvopnunarsamningar eru eitt mikilvægasta verkfærið sem alþjóðasamfélagið hefur til að sporna gegn aukinni vígvæðingu og uppbyggingu vopnabúra, þ.m.t. kjarnorkuvopna. Þetta finnst mér gríðarlega mikilvægt að komi hérna fram og vil spyrja hvernig hæstv. ráðherra hyggist beita sér þegar kemur að þessum málum, til að mynda hvort Ísland fari að taka þátt í fundum í tengslum við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum (Forseti hringir.) eins og önnur ríki í NATO á borð við Noreg, Holland og Þýskaland hafa gert þó svo að þau séu ekki aðilar að samningnum sjálfum.