154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og aðrir að óska hæstv. utanríkisráðherra velfarnaðar og óska henni til hamingju með heimkomuna ef þannig mætti orða það. Mig langaði, í samhengi við þann mikilvæga málaflokk sem hæstv. ráðherra fer með á þeim merkilegu tímum sem við lifum, að ræða stuttlega við hana um hennar áherslur í öryggismálum í samhengi við fjármálaáætlun. Ég átti orðastað hér fyrr í dag við hæstv. dómsmálaráðherra sem fer með öryggismál frá öðrum öngum. Þar er starfandi alþjóðadeild. Við erum líka með landhelgisgæslu og ég er kannski aðeins með hugann við skörun þessara málaflokka í samhengi við þá tíma sem við lifum.

Þegar við horfum til þess hvernig við best tryggjum öryggi fólksins í landinu ætti þá ekki að vera sterkari strengur á milli þessara tveggja ráðuneyta? Ætti utanríkisráðherra á hverjum tíma ekki að hafa hagsmuni af því að almenn löggæsla í landinu sé byggð upp með þeim hætti að öryggi fólksins í landinu sé tryggt? Orð eins og réttarríki kemur fyrir í þessum kafla þannig að ég er kannski bara að leita eftir því hvernig samtalið við ríkisstjórnarborðið er í þessu tiltekna samhengi. Við erum jú ekki land sem er með her og ég held að við séum nú flest stolt af því. Við erum með landhelgisgæslu, (Forseti hringir.) ríkislögreglustjóraembætti og við erum þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. En hvernig horfir þetta við hæstv. utanríkisráðherra?